Erlent

Táningur segist vera barn sem hvarf fyrir átta árum

Samúel Karl Ólason skrifar
Timmothy og foreldrar hans.
Timmothy og foreldrar hans.
Lögregluembætti í Illinois, Kentucky og Cincinnati í Bandaríkjunum eru á yfirsnúningi eftir að táningur steig fram sem segist vera barn sem hvarf fyrir átta árum. Táningurinn fannst í gærmorgun í Newport í Kentucky og var hann marinn í andlitinu. Hann sagðist hafa flúið úr haldi tveggja manna í Cincinnati.

Konan sem fann hann segir táninginn hafa sagst vilja fara heim og grátbeðið um hjálp. Hann sagðist heita Timothy Pitzen.

Í maí árið 2011 kom móðir Timmothy í skóla drengsins í Aurora í Illinois og sagði kennurum að upp hefði komið neyðartilvik innan fjölskyldunnar og hún væri þar til að sækja hann. Timmothy var þá sex ára gamall. Þremur dögum síðar fannst hún látin á móteli og virtist hún hafa svipt sig lífi. Timmothy var hvergi sjáanlegur.



Seinna kom í ljós að móðir Timmothy hafði farið með hann í dýragarð og skemmtigarð og sáust þau á öryggisupptökum víða um Illinois. Hún skildi eftir sig miða þar sem hún hafði skrifað að Timmothy væri nú í höndum fólks sem myndi annast hann og elska. Hún sagði að hann myndi aldrei finnast.

Bílstóll Timmothy var einnig horfinn úr bíl hennar.

Foreldrar drengsins höfðu átt í vandræðum og móðir hans glímdi við mikið þunglyndi. Hún hafði minnst einu sinni áður reynt að svipta sig lífi.

Táningurinn sagði lögregluþjónum, samkvæmt Washington Post, að hann hefði flúið frá tveimur mönnum sem hann hafi verið með í sjö ár. Hann lýsti þeim og sagði lögregluþjónum hvernig bíl þeir væru á. Lögreglan hefur ekki fundið mennina.



Lögregluþjónar frá Aurora fóru til Kentucky í gær og stendur til að gera DNA-próf til að sannreyna hvort táningurinn sé í rauninni Timmothy Pitzen og njóta þeir aðstoðar útsendarar Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI). Fregnir hafa borist af því að hann hafi gefið lögregluþjónum upp réttan afmælisdag.

AP fréttaveitan hefur eftir lögregluþjóni í Aurora að þeim hafi borist þúsundir ábendinga um að Timmothy hefði skotið upp kollinum víðs vegar um landið.

Alana Anderson, amma Timmothy, sagði ABC í Chicago að hún vissi í rauninni ekki hver staðan væri. Hún vonaði að þetta væri hann og að hann væri við góða heilsu.

„Við höfum aldrei hætt að leita að honum, hugsa um hann, elska hann og við munum gera allt til að fá hann aftur,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×