Erlent

Pilturinn er ekki barnið sem hvarf fyrir átta árum

Birgir Olgeirsson skrifar
Timmothy og foreldrar hans.
Timmothy og foreldrar hans.
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, tilkynnti í dag að pilturinn sem fannst í Kentucky í gær væri ekki Timmothy Pitzen sem hvarf sex ára gamall fyrir átta árum.

FBI hefur unnið hörðum höndum að því að fá staðfestingu á því að pilturinn væri Pitzen en rannsóknir á lífsýnum leiddu í ljós að svo er ekki.

„Til að taka allan vafa af, þá hafa lögregluyfirvöld og munu ekki gleyma Timmothy og við vonumst til að koma honum til fjölskyldu sinnar einn daginn. Það gerist því miður ekki í dag,“ sagði Timothy Beam, yfirmaður hjá FBI í Louisville, í tilkynningu vegna málsins.

Mál Timmothy er mikill harmleikur en í maí árið 2011 kom móðir hans í skóla Timmothy í Aurora í Illinois og sagði kennurum að upp hefði komið neyðartilvik innan fjölskyldunnar og hún væri þar til að sækja hann. Timmothy var þá sex ára gamall. Þremur dögum síðar fannst hún látin á vegahóteli og virtist hún hafa fyrirfarið sér. Timmothy var hvergi sjáanlegur.

Seinna kom í ljós að móðir Timmothy hafði farið með hann í dýragarð og skemmtigarð og sáust þau á öryggisupptökum víða um Illinois. Hún skildi eftir sig miða þar sem hún hafði skrifað að Timmothy væri nú í höndum fólks sem myndi annast hann og elska. Hún sagði að hann myndi aldrei finnast.

Táningurinn, sem sagðist vera Timmothy, sagði lögregluþjónum, samkvæmt Washington Post, að hann hefði flúið frá tveimur mönnum sem hann hafi verið með í sjö ár. Hann lýsti þeim og sagði lögregluþjónum hvernig bíl þeir væru á. Lögreglan hefur ekki fundið mennina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×