Innlent

G-7 ríkin ósammála um málefni Miðausturlanda

Andri Eysteinsson skrifar
Frá fundi fjármálaráðherra G-7 ríkjanna árið 2016
Frá fundi fjármálaráðherra G-7 ríkjanna árið 2016
Utanríkisráðherrar G-7 ríkjanna komust ekki að samkomulagi um mikilvæg málefni sem varða miðausturlönd á fundi sínum í Dinard í Frakklandi í dag. Einn mikilvægan hlekk í samstarfinu vantaði en Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna lét ekki sjá sig í þetta skipti, John J. Sullivan, varautanríkisráðherra var sendur í hans stað. AP greinir frá.

Ráðherrarnir birtu yfirlýsingu eftir tveggja daga fundarhöld og ákváðu með henni að beita sér í baráttunni gegn netglæpum, vinna gegn fólkssmygli og að gefa konum meira pláss í friðarviðræðum. Athygli vakti að lítið sem ekkert var komið inn á málefni miðausturlanda, hvorki var minnst á Ísrael og Palestínu, né um kjarnorkumál Íran.

Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna var viðurkennt að þeir væru ósammála um deilur Ísrael og Palestínu.

G-7 ríkin eru Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bretland og Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×