Erlent

Segja Indverja hyggja á árás gegn Pakistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Shah Mehmood Qureshi, utanríkisráðherra Pakistan.
Shah Mehmood Qureshi, utanríkisráðherra Pakistan. EPA/HOW HWEE YOUNG
Shah Mehmood Qureshi, utanríkisráðherra Pakistan, segir yfirvöld ríkisins búa yfir upplýsingum um að Indverjar ætli sér að gera árás á Pakistan. Yfirvöld Indlands saka nágranna sína um móðursýki.

Samband ríkjanna hefur verið stirt frá því í febrúar þegar hryðjuverkasamtök, sem starfrækt eru í Pakistan, felldu 40 indverska hermenn í sjálfsmorðsárás í Kasmír. Indverjar gerðu í kjölfarið loftárás á yfirráðasvæði Pakistan í Kasmír og kom til orrustu á milli flugmanna ríkjanna sem endaði með því að ein indversk þota var skotin niður.

Indverjar hafa jafnvel sakað Pakistana um að hafa komið að sjálfsmorðsárásinni. Því hefur verið neitað í Islamabad og Imran Khan, forsætisráðherra Pakistan, hefur heitið því að starfa með Indverjum til að rannsaka þær ásakanir búi þeir yfir einhverjum marktækum sönnunargögnum.

Bæði ríkin búa yfir kjarnorkuvopnum og hafa háð þrjár styrjaldir sín á milli frá því Bretar yfirgáfu svæðið og skiptu ríkjunum upp eftir trúarbrögðum heimamanna árið 1947. Af þeim hafa tvær snúist um Kasmír, sem bæði ríkin gera tilkall til en stjórna sitthvorum hluta héraðsins.

Qureshi ræddi við blaðamenn í dag og sagði að Pakistanar hefðu áreiðanlegar upplýsingar um að Indverjar væru að skipuleggja árás á Pakistan á milli 16. og 20. apríl. Hann sagði að búið væri að koma þeim upplýsingum til sendiherra fastaríkja í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Raveesh Kumar, talsmaður Utanríkisráðuneytis Indlands, sagði ekkert til í þessum ásökunum. Hann sagði þær fáránlegar og sagði að Qureshi væri að sýna óábyrga hegðun. Markmið hans væri að valda usla og hvetja hryðjuverkamenn í Pakistan til þess að gera árásir í Indlandi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×