Íslenski boltinn

Ungt fólk kemst inn á heimavöll hamingjunnar á tombóluverði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Víkingar verða með ungt lið og mögulega unga stuðningsmenn.
Víkingar verða með ungt lið og mögulega unga stuðningsmenn. vísir/bára
Víkingar eru aðeins að hrista upp í ársmiðasölu sinni fyrir Pepsi Max-deild karla í fótbolta í sumar en þeir hafa sett í sölu árskort fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára (fæðingarár 1994-2003) sem kostar aðeins 4.990 krónur.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Víkingum en verðið á árskortinu þýðir að hver leikur fyrir fólk á þessum aldri kostar aðeins 453 krónur.

„Undanfarið hefur verið töluverð umræða og krafa um bætta umgjörð félaga á heimaleikjum og hafa félögin leitað ýmissa leiða til þess að fjölga áhorfendum,“ segir í tilkynningu Víkinga.

„Með því að bjóða ársmiða á hagstæðu verði og sérstaklega fyrir aldurshópinn 16-25 ára er von okkar að áhorfendum fjölgi, en frítt verður fyrir yngri en 16 ára á Heimavelli hamingjunnar.“

Miðaverð á leiki Víkings verður 2.000 krónur eins og hjá öðum félögum en ársmiðakort á alla ellefu heimaleikina kostar 9.900 eða 900 krónur leikurinn.

Þá bjóða Víkingar upp á Fjölskylduárskort fyrir 19.000 krónur sem gildir fyrir tvo fullorðna og fjóra einstaklinga á aldrinum 16 til 20 ára en samkvæmt tilkynningu Víkinga var það vinsæll kostur á síðasta ári.

Víkingar spila fyrstu þrjá heimaleiki sína á Eimskipsvelli Þróttara vegna framkvæmda á nýjum gervigrasvelli liðsins í Víkinni en fyrsti skráði heimaleikur í Fossvoginum er í sjöundu umferð á móti HK 14. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×