Innlent

Segir ríkisstjórnina ekki hafa brugðist rétt við vandræðum WOW

Sylvía Hall skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir skorta verulega á viðbrögð stjórnvalda við falli WOW air. Það vanti alveg efnahagsleg viðbrögð. Það þurfi að grípa inn í áður en keðjuverkunin breiðist um allt og viðheldur sjálfum sér.

Hann segist hafa spurt ráðherra ríkisstjórnarinnar hvort þeir hefðu áætlun ef allt færi á versta veg sem var raunin. Sú áætlun hafi þó verið vonbrigði.

„Þegar þetta plan birtist snýst það bara um að koma farþegum heim sem er ekki beinlínis í verkahring ríkisstjórnarinnar.“

Hann segir ríkisstjórnina ekki hafa hugað að því að bregðast við gjaldþroti félagsins efnahagslega og koma til móts við ferðaþjónustuna og efnahagslífið í heild. Þá segir hann ekki hafa verið áætlun um að beinlínis bjarga félaginu og þeim störfum sem þar voru í húfi.

„Það er ekki að sjá að það hafi verið skoðaðar neinar leiðir til þess að halda þessum rekstri gangandi lengur, þó ekki væri nema yfir sumarið og að verja störfin og reksturinn að svo miklu leyti sem kynni að hafa verið hægt. Svo vantar bara efnahagslegu viðbrögðin,“ sagði Sigmundur sem segist hafa áhyggjur af framhaldinu.

Þetta er meðal þess sem Sigmundur ræddi á flokkráðsfundi Miðflokksins í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×