Erlent

Georgíuríki þrengir verulega að réttinum til þungunarrofs

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkisþing Georgíu í Atlanta þar sem repúblikanar fara með öll völd.
Ríkisþing Georgíu í Atlanta þar sem repúblikanar fara með öll völd. Vísir/Getty
Repúblikanar á ríkisþingi Georgíu í Bandaríkjunum hafa samþykkt frumvarp sem takmarkar enn rétt kvenna til þungunarrofs þar. Staðfesti ríkisstjórinn lögin eins og gert er ráð fyrir gæti þungunarrof verið ólöglegt strax í sjöttu viku meðgöngu í ríkinu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að þungunarrof sé ólöglegt eftir að læknar geta greint hjartslátt fósturs. Í frétt New York Times kemur fram að það geti gerst strax í sjöttu viku meðgöngu, áður en margar konur gera sér grein fyrir að þær séu óléttar.

Frumvarpið fór naumlega í gegnum ríkisþingið þar sem repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum. Búist er við því að Brian Kemp, ríkisstjóri og repúblikani, skrifi undir lögin og staðfesti.

Sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram í nokkrum ríkjum þar sem repúblikanar fara með völd. Ríkisstjórar í Mississippi og Kentucky hafa þegar staðfest sambærileg lög undanfarnar viku. Ríki eins og Flórída, Missouri, Ohio, Tennessee og Texas eru líkleg til að fylgja í kjölfarið á þessu ári.

Dómstólar hafa hins vegar frestað gildistöku laganna í Kentucky og í Iowa og Norður-Dakóta töldu dómstólar lögin stríða gegn stjórnarskrá. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur áður dæmt að konur hafi rétt á þungunarrofi um það bil fram í 24. viku.

Andstæðingar frumvarpanna saka flytjendur þeirra um að samþykkja þau gagngert til þess að fá Hæstarétt Bandaríkjanna til að taka málið fyrir aftur. Íhaldsmenn eru nú með meirihluta í dómnum eftir að Donald Trump forseti skipaði tvo íhaldssama dómara á síðustu tveimur árum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×