Erlent

Ein ríkasta kona Rússlands fórst í flugslysi við Frankfurt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Natalia Fileva var meðeigandi S7, stærsta einkarekna flugfélags Rússlands.
Natalia Fileva var meðeigandi S7, stærsta einkarekna flugfélags Rússlands. Vísir/AP
Þrír fórust í flugslysi í grennd við þýsku borgina Frankfurt síðdegis í dag. Natalia Fileva, einn eigenda rússneska flugfélagsins S7 og ein ríkasta kona Rússlands, er á meðal þeirra sem fórust í slysinu. Þá létust tveir í bílslysi viðbragðsaðila sem voru á leið á slysstað í dag.

Í frétt New York Times segir að vélin, sem var eins hreyfils flugvél af gerðinni Epic LT, hafi brotlent á akri í aðflugi að flugvellinum í Egelsbach, bæ í grennd við Frankfurt. Þrír voru um borð í vélinni, þar á meðal hin 55 ára Fileva, og létust allir. Talið er að hinir tveir hafi einnig verið rússneskir ríkisborgarar.

Í yfirlýsingu frá S7, stærsta einkarekna flugfélagi Rússlands, segir að félagið sendi aðstandendum Filevu samúðarkveðjur. Þá er hennar minnst sem áhrifamikils leiðtoga og yndislegrar manneskju. „Þetta er óbætanlegur missir,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Tveir til viðbótar létust í árekstri fólkbíls við lögreglubíl sem var á leið á slysstað. Samkvæmt frétt DPA-fréttaveitunnar eru þrír lögregluþjónar alvarlega slasaðir eftir áreksturinn en bílstjóri og farþegi hins bílsins létust.

Frá vettvangi flugslyssins.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×