Erlent

Prestur sakaður um að hafa þuklað á konu á líknardeild

Kjartan Kjartansson skrifar
Presturinn vann við Kirkju heilags Páls í Austin í Texas.
Presturinn vann við Kirkju heilags Páls í Austin í Texas. Vísir/Getty
Kaþólskur prestur í Texas hefur verið handtekinn og ákærður fyrir að hafa þuklað á konu í líknarmeðferð þegar hann las henni síðustu sakramentin. Biskupsdæmið þar sem presturinn starfar segir að hann hafi þegar verið leystur frá störfum vegna annarra áskana um ósæmilega hegðun.

AP-fréttastofan segir að Gerold Langsch, prestur í Austin, hafi verið handtekinn á fimmtudag í síðustu viku og ákærður vegna atviksins sem átti sér stað 5. október. Presturinn er 75 ára gamall og gæti átt yfir höfði sér árs fangelsi verði hann fundinn sekur.

Lögreglan í Austin segir að Langsch hafi farið með síðustu sakramentin yfir konu sem var í líknarmeðferð á heimili sínu vegna fylgikvilla sykursýki. Konan, sem er enn á lífi, sakar hann um að hafa borið á hana smyrsl, nuddað brjóst hennar og klipið í geirvörtu hennar.

Biskupsdæmið í Austin segir að presturinn hafi verið leystur frá störfum í síðasta mánuði eftir að önnur kvörtun um óviðeigandi hegðun í garð fullorðinnar manneskju barst. Sú kvörtun hafi ekki varðað líkamlega snertingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×