Viðskipti innlent

Hagnaður Isavia um 4,3 milljarðar á síðasta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Frá aðalfundi Isavia fyrr í dag.
Frá aðalfundi Isavia fyrr í dag. isavia
Hagnaður Isavia á síðasta ári nam tæpum 4,3 milljörðum króna sem er um 313 milljóna króna hækkun milli ára.

Aðalfundur Isavia fór fram í dag þar sem ársreikningur félagsins fyrir árið 2018 var samþykktur. Í tilkynningu segir að rekstur ársins hafi gengið vel og hafi rekstrarafkoma verið í samræmi við áætlanir.

„Tekjur félagsins námu 41,8 milljörðum króna sem er 10% aukning á milli ára og er stærsti hluti tekna tilkominn vegna flugvallaþjónustu og vörusölu. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 12% milli ára, eða úr 8,8 milljónum í rúmlega 9,8 milljónir, flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið fjölgaði um rúm 6% og innanlandsfarþegum fækkaði um 4,5%.

Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 11,3 milljörðum króna og jókst um tæp 15% á milli ára. Heildarafkoma nam 4,3 milljörðum króna og hækkaði um rúmar 300 milljónir króna frá fyrra ári, eða 8%. Arðsemi eiginfjár var 12,9%.

Heildareignir samstæðunnar námu 79,8 milljörðum króna í árslok 2018 og jukust um 7,3 milljarða króna milli ára. Þar af eru 57,2 milljarðar króna tilkomnir vegna varanlegra rekstrarfjármuna. Staða eigin fjár hækkaði um rúma 4,3 milljarða króna milli ára sem skilaði 44,2% eiginfjárhlutfalli sem er 1,5% hækkun frá síðasta ári,“ segir í tilkynningunni.

Á aðalfundinum var einnig samþykkt ný stjórn félagsins. Aðalstjórn Isavia ohf. skipa nú þau Orri Hauksson, sem kemur inn í stað fyrrverandi stjórnarformanns Ingimundar Sigurpálssonar, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson. Orri var kosinn stjórnarformaður Isavia á stjórnarfundi sem haldinn var að loknum aðalfundi. Matthías var kosinn varaformaður stjórnar.

Isavia ohf. annast rekstur og uppbyggingu flugvalla á Íslandi og stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×