Innlent

„Finnum til með okkar félagsmönnum sem starfa hjá WOW“

Birgir Olgeirsson skrifar
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. fbl/Ernir
Flugfreyjufélag Íslands fylgist grannt með stöðu WOW air en stjórn og trúnaðarráð félagsins kom saman á reglubundnum fundi fyrr í dag þar sem staða flugfélagsins var rædd.

Rúmlega 400 félagsmenn Flugfreyjufélags Íslands starfa hjá WOW air en Berglind Hafsteinsdóttir, formaður félagsins, segir félagið í raun ekki hafa meiri upplýsingar en þær sem koma fram í fjölmiðlum.

„Við fylgjumst með stöðunni og vonum það besta,“ segir Berglind.

Félagið hefur ekki fundað með þeim félagsmönnum sem starfa hjá WOW en fylgst er grannt með stöðunni og þeim haldið upplýstum.

Fari allt á versta veg og WOW air fer í þrot segir Berglind félagið eiga eftir að leita allra leiða til að tryggja réttarstöðu sinna félagsmanna.

„Við munum leita til lögfræðinga félagsins og Alþýðusambandsins til að tryggja þeirra stöðu,“ segir Berglind.

Hún segir fólk innan WOW virkilega áhyggjufullt.

„Við finnum til með okkar félagsmönnum sem starfa hjá WOW. Þetta hefur verið mikil langtímaóvissa sem er gífurlega vont fyrir starfsmennina. Þetta er fyrirtæki sem þau vinna hjá og þau eru mjög stolt að vinna hjá WOW og við vonum það besta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×