Erlent

Herinn gefst upp á Bouteflika

Samúel Karl Ólason skrifar
Gaid Salah, yfirmaður herafla Alsír.
Gaid Salah, yfirmaður herafla Alsír. AP/Anis Belghoul
Gaid Salah, yfirmaður herafla Alsír, segir að beita þurfi 102. grein stjórnarskrár landsins til að koma forsetanum Abdelaziz Bouteflika frá völdum. Sú grein fjallar um hvað grípa skuli til bragðs ef forseti landsins er ófær um að sinna skyldum sínum.

Undanfarnar vikur hafa fjölmenn mótmæli átt sér stað víða um landið þar sem Bouteflika og stjórn hans var mótmælt.

Mótmælin blossuðu upp eftir að hinn 82 ára forseti tilkynnti að hann myndi sækjast eftir endurkjöri í kosningunum sem fram fara 18. apríl. Bouteflika hefur gegnt embætti forseta Alsírs frá árinu 1999 og er alkunna að hann er mjög heilsuveill. Hann hlaut heilablóðfall árið 2013 og hélt hélt síðast opinbert ávarp árið 2014 þegar hann þakkaði stuðningsmönnum sínum fyrir endurkjörið.

Hann tilkynnti í síðasta mánuði að hann myndi ekki bjóða sig fram aftur. Mótmælin hafa þrátt fyrir það haldið áfram. Stjórnarandstaðan í landinu, sem hefur verið sundruð um árabil, heldur því fram að Bouteflika sé ekki í neinu standi til að stýra landinu og sé hann frekar orðinn strengjabrúða fámennrar valdaklíku í landinu.

Beiting 102. greinar stjórnarskrárinnar felur í sér að stjórnarskrárráð Alsír þarf að koma saman og lýsa því yfir að forsetinn get ekki sinnt skyldum sínum. Þingið þarf einnig að lýsa því yfir og forseti efri þingdeildar Alsír verður forseti í 45 daga. Geti forsetinn ekki enn sinnt skyldum sínum verður að boða til kosninga innan annarra 45 daga. Þetta yrði því 90 daga ferli í heildina.

Salah sagði að þetta væri besta lausnin í stöðunni. Hingað til hefur herinn stutt við bakið á forsetanum og þá sérstaklega Salah. Hann er sagður vera hornsteinn í grunni ráðandi stétta í Alsír. Til marks um það bendir BBC á að mótmælendur hafi verið að kalla eftir því að Salah láti sig líka hverfa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×