Innlent

Bæjarstjóra líður eins og betlara gagnvart ríkinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar, við bílastæðið hjá Kirkjufellsfossi.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar, við bílastæðið hjá Kirkjufellsfossi. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Sveitarstjórnarmönnum líður eins og betlurum gagnvart ríkisvaldinu þegar kemur að ferðamannastöðum, segir bæjarstjóri Grundarfjarðar, sem vill að sveitarfélögin hafi eigin tekjustofn til að mæta innviðauppbyggingu vegna ferðamanna. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Grundarfjörður er meðal þeirra sveitarfélaga sem rækilega hafa fundið fyrir fjölgun ferðamanna. Mæta þarf örtröðinni við rætur Kirkjufells með tugmilljóna króna framkvæmdum við bílastæði, göngustíga og útsýnispalla. Peningarnir fást með sérstakri úthlutun ríkisvaldsins. 

„Það er þessi Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Hann hefur afskaplega þröngt form til þess að veita styrki. Og við erum raunverulega svolítið á hnjánum við að betla styrki til framkvæmda, helst í sveit,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar.

Frá Grundarfirði. Séð yfir hafnarsvæðið. Kirkjufell í baksýn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Björg tekur nærtækt dæmi, hafnargjöld, sem sveitarfélögin fá. Hafnasjóðir sveitarfélaga hafi hafnargjöld sem tekjustofn. 

„Fyrir það hafa samfélög getað blómstrað af því að við gátum byggt bryggjur og hafnarsvæði. Nú erum við að byggja upp þessa atvinnugrein sem heitir ferðaþjónusta. Og sveitarfélögin hafa enga beina tekjustofna til þess að byggja upp þessa innviði.“ 

Verkefnin eru ærin sem bæjarfélagið þarf að standa undir vegna ferðamanna. 

„Það eru upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðafólk, það eru almenningssalerni, það eru tjaldsvæði, - þjónusta sem að mestu leyti gagnast ekki heimafólki en gagnast auðvitað atvinnugreininni og þannig óbeint stuðlar að uppbyggingu. En okkur vantar beinar tekjur til þess að geta staðið í þessari uppbyggingu. Úr því þarf að bæta,“ segir Björg.

 

Við Kirkjufellsfoss eru að hefjast tugmilljóna króna framkvæmdir við nýtt bílastæði, göngustíga og útsýnispalla.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Sveitarfélög fá útsvar af tekjum starfsmanna í ferðaþjónustu sem og fasteignagjöld af byggingum sem þjóna ferðamönnum. Bæjarstjórinn segir þær tekjur ekki vega upp kostnaðaraukann vegna ferðamanna. 

„Ef við horfum á bæjarsjóð, þá get ég alveg með sanni sagt að bæjarsjóður finnur ekki fyrir tekjuaukningunni í samræmi við þá útgjaldaaukningu sem þetta hefur í för með sér,“ segir bæjarstjóri Grundarfjarðar. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

3,5 milljarðar til 130 ferða­manna­staða

Alls verður 3,5 milljörðum króna úthlutað úr ríkissjóði til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 ferðamannastaða á næstu þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×