Innlent

„Mikil vonbrigði“ en ferðaþjónustan sterk

Heimir Már Pétursson og Samúel Karl Ólason skrifa
Vísir/Vilhelm
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir íslenska ferðaþjónustu sterka. Gjaldþrot WOW air sé þó röskun og muni hafa áhrif. Nú séu um 1.300 farþegar strandaglópar á Íslandi og um 1.400 til viðbótar á leiðinni. Það gæti tekið þrjá til fjóra daga að koma þessu fólki til síns heima.

„Hér er komin niðurstaða. Hér er að raungerast það sem við höfum svo sem búið okkur undir að gæti mjög líklega gerst. Þetta eru auðvitað vonbrigði og maður finnur sérstaklega til með öllu þessu starfsfólki sem hjá fyrirtækinu starfa;“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um gjaldþrot WOW air.

„Við erum með farþega í Keflavík, um 1.300 hundrað núna og við erum með um 1.400 farþega sem eru annars staðar á leiðinni til Íslands. Við vitum að Icelandair hefur þegar boðið svokölluð björgunarfargjöld og Easy Jet sömuleiðis, og von á því að fleiri flugfélög geti gert það líka til þess að koma þessum farþegum til síns heima,“ segir Þórdís Kolbrún. Það ferli gæti tekið þrjá til fjóra daga.

Þórdís Kolbrún segir gjaldþrot WOW air mikla röskun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og það muni hafa áhrif á hana.

„En það skiptir auðvitað öllu máli að halda því til haga að íslensk ferðaþjónusta er sterk, það er mikil eftirspurn eftir því að koma til landsins og við eigum óinnleyst tækifæri í þá veru.“






Tengdar fréttir

Þurfa hugsanlega að breyta áherslum: Sættir sig ekki við að heimilin taki viðlíka skell eins og eftir hrun

Verkalýðshreyfingin þarf mögulega að breyta áherslum sínum í kjaraviðræðum vegna þeirra tíðinda sem bárust í morgunsárið að flugfélagið WOW air væri hætt starfsemi. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist ekki ætla að sætta sig við að heimilin í landinu taki viðlíka skell eins og eftir hrun ef rætist úr svörtustu verðbólguspám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×