Innlent

Ákæran hryggir Sigur Rósar-menn en vona að málið skýrist fyrir dómi

Birgir Olgeirsson skrifar
Meðlimir hljómsveitarinnar hafa kennt handvömm endurskoðanda um.
Meðlimir hljómsveitarinnar hafa kennt handvömm endurskoðanda um. Vísir/GETTY
Meðlimir Sigur Rósar harma mjög að embætti héraðssaksóknara hafi ákveðið að ákæra þá vegna gruns um skattalagabrota. Þetta segja þeir í yfirlýsingu sem þeir hafa sent fjölmiðlum vegna ákærunnar.

Vonast þeir á sama tíma til þess að málsástæður þeirra skýrist. Þeir hafi ávallt haft fullan ásetning til að standa í réttum skilum við skattayfirvöld og stóðu í þeirri trú að það hefði verið gert.

Er um að ræða rannsókn á skattaframtölum hljómsveitarmeðlimanna fyrir árin 2010 til 2014. Í yfirlýsingunni er því haldið fram að ríkisskattstjóri hafi fallist á allar innsendar upplýsingar og útskýringar þeirra í desember síðastliðnum og því sé enginn ágreiningur á milli þeirra og skattayfirvalda.

Málið rataði fyrst í fjölmiðla í mars í fyrra þegar fregnir bárust af því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði kyrrsett eignir meðlima Sigur Rósar, þeirra Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Hólm og Orra Páls Dýrasonar, að kröfu tollstjóra. Varðaði kyrrsetningin eigur þeirra sem metnar voru á tæpar 800 milljónir króna en ástæðan var sögð rannsókn skattrannsóknastjóra á meintum skattalagabrotum. Stærsti hlutinn var í eigu Jóns Þórs, eða 638 milljónir króna.

Yfirlýsinguna í heild má sjá hér fyrir neðan:

Skil á skattframtölum hljómsveitarmeðlima fyrir árin 2010-2014 hafa verið til skoðunar hjá yfirvöldum í nokkur ár. Í desember síðastliðnum féllst ríkisskattstjóri á allar innsendar upplýsingar og útskýringar og því er enginn ágreiningur á milli þeirra og skattyfirvalda.

Héraðssaksóknari hefur hins vegar tekið ákvörðun um að ákæra hljómsveitarmeðlimi vegna vanframtalinna tekna. Hljómsveitarmeðlimir harma að málið þurfi að fara fyrir dóm en vonast á sama tíma til þess að málsástæður þeirra skýrist. Þeir hafi ávallt haft fullan ásetning til að standa í réttum skilum við skattyfirvöld og stóðu í þeirri trú að það hefði verið gert.

Bjarnfreður Ólafsson, LOGOS lögmannsþjónustu: „Hljómsveitarmeðlimir eru tónlistarmenn og ekki sérfróðir í bókhaldi og alþjóðlegum viðskiptum – hvað þá í framtalsgerð og skattskilum. Þess vegna réðu þeir viðurkennda sérfræðinga til að annast bókhald og öll samskipti við íslensk skattyfirvöld. En í ljós hefur komið að röngum framtölum var skilað til ríkisskattstjóra og/eða þeim skilað alltof seint. Á sama tíma töldu hljómsveitarmeðlimir að þessi mál væru í lagi og í höndum fagmanna. Það verður núna verkefni Héraðssaksóknara að færa sönnur fyrir því að hljómsveitarmeðlimir hafi sjálfir gerst sekir um stórfellda vanrækslu á framtalsskyldu sinni. Í ljósi málsatvika fæ ég ekki séð hvernig það verður hægt og þess vegna veldur það vonbrigðum að embætti Héraðssaksóknara hafi tekið ákvörðun um ákærur á hendur þeim.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×