Innlent

80 milljónir til Vinnumálastofnunar til að mæta falli WOW air

Birgir Olgeirsson skrifar
Aldrei í sögunni hafi jafn fjölmennur hópur orðið atvinnulaus á jafn skömmum tíma og eftir að WOW air fór í þrot.
Aldrei í sögunni hafi jafn fjölmennur hópur orðið atvinnulaus á jafn skömmum tíma og eftir að WOW air fór í þrot. Vísir/Vilhelm
Félagsmálaráðuneytið hefur ákveðið að Vinnumálastofnun verði veitt 80 milljóna króna tímabundið framlag vegna falls WOW air. 65 milljónum verður varið til að styrkja þjónustuver stofnunarinnar í Reykjavík og 15 milljónum til að styrkja þjónustuskrifstofunnar í Reykjanesbæ.

Þetta kynnti Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir þetta mikinn létti en hún hafði farið fram á aukið framlag frá ráðuneytinu til að mæta þessu höggi sem fylgir falli WOW air. Ellefu hundruð manns hafi misst vinnuna hjá fyrirtækinu á einu bretti og fleiri munu missa vinnuna til viðbótar sem þjónustuðu fyrirtækið.

Hún segir þörfina fyrir fleiri starfsmenn í þjónustuverum, afgreiðslu og vinnumiðlun hafa aukist gríðarlega á einum degi. Aldrei í sögunni hafi jafn fjölmennur hópur orðið atvinnulaus á jafn skömmum tíma.

Vinnumálastofnun var með viðbragðsáætlun sem tók mið af stöðunni ef allt færi á versta veg með WOW air og sú staða varð að veruleika í gær.

Í dag bíða 500 umsóknir um atvinnuleysisbætur eftir afgreiðslu í gagnagrunni stofnunarinnar.

Hún segir atvinnuleysissjóð standa ágætlega, enda hefur verið lítið um atvinnuleysi undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×