Innlent

Passa að fyrirtæki noti ekki gjaldþrot WOW air til kjaraskerðingar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. vÍSIR/VILHELM
Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segir sambandið fylgjast vel með því að fyrirtæki noti ekki gjaldþrot flugfélagsins WOW air sem fyrirslátt fyrir kjaraskerðingu, í ljósi fjölmargra uppsagna sem greint hefur verið frá í gær og í dag. Þá eru þeir sem misst hafa vinnuna hvattir til að afla sér upplýsinga um réttindi sín á vinnumarkaði, að því er fram kemur í vikupistli forsetans.

Fall WOW air og uppsagnir fyrirtækja í kjölfar þess eru útgangspunktar pistilsins að þessu sinni. Drífa segir áhyggjur nú snúa að starfsfólkinu sem misst hefur vinnuna, bæði hjá flugfélaginu sjálfu og öðrum fyrirtækjum. Um 1100 manns misstu vinnuna hjá WOW air en aldrei hefur fleiri verið sagt upp á einu bretti í Íslandssögunni, að sögn Vinnumálastofnunar.

„Í dag hef ég setið fundi með fyrrum starfsfólki WOW air, bæði hjá Flugfreyjufélagi Íslands og VR en það eru stéttarfélög stærstu hópanna sem misstu vinnu vegna gjaldþrots WOW. Fjölmargar spurningar vakna og ótti um að geta ekki framfleytt sér og sínum er auðvitað ráðandi,“ segir Drífa í pistli sínum. Þannig skipti miklu máli að eiga bakhjarl í sínu stéttarfélagi og leita þangað með spurningar um réttindi sín.

Þá verði fylgst grannt með fyrirtækjum sem ætli sér að milda höggið með því að endurskipuleggja vaktir, endurráða starfsfólk eða segja upp viðbótarsamningum í stað þess að grípa til fjöldauppsagna.

„Vel er fylgst með því að fyrirtæki séu ekki að nota gjaldþrot WOW sem fyrirslátt fyrir kjaraskerðingu en auðvitað er staðan alvarleg víða,“ segir Drífa.

Pistil Drífu má lesa í heild hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×