Innlent

„Verið að reyna á ystu þolmörk vinnulöggjafarinnar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. vísir/vilhelm
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar þar sem starfsfólk sinnir aðeins hluta venjubundinna starfa reyni á þolmörk vinnulöggjafarinnar.

Verið sé að útfæra verkföll með öðrum hætti en sátt hafi verið um undanfarin ár og áratugi innan verkalýðshreyfingarinnar. SA munu kæra aðgerðirnar til Félagsdóms síðar í dag eða á morgun.

„Ég hef sagt að þetta marki að mörgu leyti skörp og illverjandi skil frá framkvæmd verkfalla undanfarin ár og áratugi. Þetta snýst í eðli sínu um það að við þurfum að velta fyrir okkur hvort það sé hægt að vera í vinnu og þiggja laun og vera í verkfalli á sama tíma. Ég hygg að það sé ekki á neinn hallað þegar ég segi að það gengur þvert á skilning margra að mæta til vinnu og þiggja laun en sinna ekki ákveðnum verkþáttum og vera þannig í sinni einföldustu í verkfalli en engu að síður í vinnunni og þiggja laun fyrir. Þetta þykir mér skjóta skökku við og ég held að margir geti tekið undir það með okkur,“ sagði Halldór Benjamín þegar hann ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hann sagði mikilvægt að leikreglurnar væru skýrar og að skýrt væri hvernig bæri að túlka vinnulöggjöfin sem væri komin til ára sinna. Þess vegna væri mikilvægt að leita leiðsagnar Félagsdóms í málinu.

„Það sjá allir í hendi sér að hér er verið að reyna á ystu þolmörk vinnulöggjafarinnar og við þetta verður ekki unað með góðu móti. Sökum þessa eiga Samtök atvinnulífsins enga aðra leið en að skjóta þessu til Félagsdóms,“ sagði Halldór Benjamín.

Viðtalið við hann má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.






Tengdar fréttir

Hyggjast kæra verkfallsaðgerðir Eflingar

Samtök Atvinnulífsins ætla í dag eða á morgun að kæra tilteknar boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar fyrir félagsdómi en aðgerðirnar voru samþykktar í atkvæðagreiðslu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×