Viðskipti innlent

Boeing 737 MAX 8: Sam­göngu­stofa fylgist grannt með gangi mála

Atli Ísleifsson skrifar
Icelandair gerir út þrjár vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8.
Icelandair gerir út þrjár vélar af gerðinni Boeing 737 MAX 8. Skjáskot úr kynningarmyndbandi Icelandair
Samgöngustofa fylgist grannt með málefnum Boeing 737 MAX 8 vélanna í kjölfar flugslyssins í Eþíópíu í gær þar sem 157 manns fórust.

Fulltrúar Icelandair hafa sagt að ekki standi til að kyrrsetja Boeing 737 MAX 8 vélar félagsins eða þá að grípa til sérstakra aðgerða, en flugfélagið gerir út þrjár slíkar vélar - Jökulsárlón, Látrabjarg og Dyrhólaey.

Slysið í Eþíópíu er annað flugslysið á um hálfu ári þar sem umrædd flugvélategund kemur við sögu, en vél Lion Air sem fórst við Jakarta í Indónesíu í október. Í báðum tilvikum hröpuðu vélarnar skömmu eftir flugtak.

Greint var frá því í morgun að kínversk flugmálayfirvöld hafi ákveðið að kyrrsetja allar vélarnar af tegundinni 737 MAX 8, alls rúmlega níutíu vélar. Sömuleiðis hafi Ethiopian Airlines og Cayman Airways kyrrsett sínar vélar.

Samstarf flugmálayfirvalda

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að samstarf flugmálayfirvalda í Evrópu snúist að stærstum hluta um samstarf um öryggi. Íslensk flugumferðaryfirvöld fylgist því grannt með umræðunni innan og ákvörðunum Flugöryggisstofnunar Evrópu, sem og í Bandaríkjunum. „Þar hefur ekki verið tekið nein ákvörðun um kyrrsetningu á þessum vélum,“ segir Þórhildur Elín.

Hún segir að sömuleiðis eigi Samgöngustofa í samstarfi við við flugrekandann, sem er Icelandair í þessu tilviki. Icelandair eigi svo í samstarfi við framleiðandann Boeing.


Tengdar fréttir

Kínverjar kyrrsetja Boeing 737 Max 8

Kínversk flugmálayfirvöld hafa ákveðið kyrrsetja Boeing 737 Max 8 þotur kínverskra flugfélaga, eftir hið mannskæða flugslys sem varð í Eþíópíu um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×