Viðskipti innlent

Face­book horfir til ís­lensks aug­lýsinga­markaðar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA
Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA Aðsend
Íslensk fyrirtæki sem hyggjast verja auglýsingafé sínu á Facebook geta nú fengið faglega aðstoð frá samfélagsmiðlinum sjálfum. Facebook hefur ákveðið að horfa til Íslands sem markaðssvæðis og leggja þannig aukna áherslu á íslenskan auglýsingamarkað.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA, segir í samtali við Vísi að þetta svipi til þess sem Google hefur gert á undanförnum árum. Íslensk fyrirtæki hafa getað leitað til fulltrúa leitarvélarinnar hafi þau spurningar um hvernig best sé að nýta Google Ads-herferðir til að ná til viðskiptavina. Facebook hafi hins vegar hunsað Ísland til þessa en nú verði breyting þar á, 2019 verði prufuár fyrir hið íslenska markaðssvæði Facebook.

Íslenskir fjölmiðlar, rétt eins og þeir útlensku, hafa á undanförnum árum misst umtalsverðan hluta auglýsingatekna sinna til Facebook og Google. Aðspurður um hvort að íslenskir fjölmiðar þurfi því ekki að hafa áhyggjur, í ljósi þess að Facebook ætli sér að sækja enn meira auglýsingafé á Íslandi segir Guðmundur að þetta sé einfaldlega þróunin. Fjölmiðlar þurfi að bregðast við þessu breytta umhverfi eins og aðrir.

Fréttin var uppfærð klukkan 11:40 eftir að ábendingar bárust um að íslensk fyrirtæki hafi áður getað leitað til Facebook með fyrirspurnir um markaðsherferðir. Helsta breytingin sem hefur átt sér stað er að Ísland er nú talið markaðssvæði í bókum samfélagsmiðilsins, ólíkt því sem áður var.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×