Erlent

Flug Boeing 737 MAX 8 og 9 bannað í lofthelgi Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Bannið mun taka gildi klukkan sjö og líklegt er að snúa þurfi einhverjum flugvélum sem verið er að fljúga til Evrópu við.
Bannið mun taka gildi klukkan sjö og líklegt er að snúa þurfi einhverjum flugvélum sem verið er að fljúga til Evrópu við. Vísir/Getty
Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, hefur bannað flug Boeing 737 MAX 8 og MAX 9 flugvéla í lofthelgi Evrópu. Bannið mun taka gildi klukkan sjö og líklegt er að snúa þurfi einhverjum flugvélum sem verið er að fljúga til Evrópu við. Áður höfðu yfirvöld ýmissa ríkja meinað notkun flugvélanna í lofthelgum sínum. Þar á meðal nokkur í Evrópu, Indlandi og Kína.

Icelandair hefur tekið þrjár flugvélar sínar úr notkun en Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir að það muni ekki valda mikilli truflun á leiðakerfi Icelandair.

Sjá einnig: Ákvörðun Breta hafði úrslitaáhrif á Icelandair

Enn sem komið er hefur notkun þeirra ekki verið bönnuð í Bandaríkjunum en Neytendastofa Bandaríkjanna, félag flugþjóna og fleiri samtök hafa kallað eftir slíku banni.

Í tilkynningu frá EASA segir að áðurnefnd ákvörðun sé tekin með tilliti til öryggis flugfarþega. Þá býður stofnunin fram aðstoð sína við rannsókn á flugslyisinu í Eþíópíu, þar sem vél Ethiopian Airlines, sem var af gerðinni Boeing 737 MAX 8, hrapaði skömmu eftir flugtak. Alls fórust 157 manns í slysinu. Þetta var annað mannskæða flugslysið á innan við fimm mánuðum þar sem umrædd flugvélagerð kemur við sögu, en 189 manns fórust þegar vél Lion Air hrapaði í Jövuhafi í október, einnig skömmu eftir flugtak.

EASA segir enn ekki hægt að draga ályktanir varðandi orsakir slyssins.


Tengdar fréttir

Icelandair kyrrsetur Boeing 737 MAX 8-vélarnar

Icelandair Group hefur ákveðið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri.

Boeing ber fullt traust til 737 MAX

Flugvélaframleiðandinn Boeing segist hafa fullan skilning á þeim aðgerðum gripið hefur verið til eftir þotu Ethiopian Airlines um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×