Lífið

Hafði aldrei komið í íbúð pabba síns

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Erla er meðal viðmælenda í 3. þætti af Viltu í alvöru deyja á Stöð 2 annað kvöld
Erla er meðal viðmælenda í 3. þætti af Viltu í alvöru deyja á Stöð 2 annað kvöld
Erla Hlynsdóttir var einkadóttir föður síns en hann svipti sig lífi á aðfangadag eða jóladag árið 2017. Hann skildi eftir sig skýr fyrirmæli um hvernig brotthvarfi hans úr þessum heimi skyldi háttað. Meðal fyrirmælanna var að einkabarn hans skyldi ekki upplýst um andlátið. Samskipti þeirra feðgina voru snúin enda öfgar í föður Erlu sem lýstu sér í því að þau voru ýmist afar góð eða afar erfið.

Erla er meðal viðmælenda í 3. þætti af Viltu í alvöru deyja á Stöð 2 annað kvöld. Lóa Pind fylgir Erlu í jarðarför föður síns og er viðstödd þegar Erla rýfur innsiglið að íbúð hans, þar sem enn eru ummerki um sjálfsvíg pabba hennar. Í myndbrotinu sem hér fylgir sést Erla skoða sig um í íbúðinni og opna tölvu föður síns, full kvíða yfir því hvað þar gæti leynst, enda fengið orðljótar sendingar frá honum síðustu árin.

Þriðji þáttur af fjórum í þáttaröðinni “Viltu í alvöru deyja?” er á dagskrá Stöðvar 2 kl. 20:40, annað kvöld, sunnudag. Þar er rætt við Erlu og aðra aðstandendur fólks sem hefur svipt sig lífi, einnig er rætt við hljómsveitina Dimmu. Leikstjórn og handrit er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, myndatökumaður er Ívar Kristján Ívarsson og klippingu annaðist Ólafur Þór Chelbat.

Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum:

Hringdu í Hjálparsíma Rauða krossins: 1717 - opið allan sólarhringinn

Talaðu við netspjall Rauða krossins á raudikrossinn.is

Eða pantaðu tíma hjá Pieta samtökunum: pieta.is


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.