Erlent

Áratugalöng átök um Kasmírsvæðið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá mótmælum gegn Indland í Karachi í Pakistan.
Frá mótmælum gegn Indland í Karachi í Pakistan. Vísir/EPA
Í skugga hárra fjalla í Suður-Asíu liggur Kasmír. Fjalllent landsvæði sem telur nærri tuttugu milljónir íbúa. Héraðið þykir mikilvægt vegna orku og menningar og er það einnig hernaðarlega mikilvægt. En samkvæmt greiningu The Diplomat er helsta mikilvægi Kasmír það að úr jöklum svæðisins rennur ferskt vatn, lífsnauðsyn fyrir íbúa á þurrum svæðum í Pakistan og á Indlandi.

Þess vegna hafa ríkin tvö tekist á um Kasmír allt frá því Indlandi var skipt upp, gróflega á milli hindúa og múslima, þegar breska heimsveldið lét landið af hendi. Fram að þeim tíma réð prins yfir ríkinu, sem kallaðist Jammu og Kasmír, og fékk hann að taka ákvörðun um hvort sameinast ætti öðru hvoru nýja ríkinu eða að lýsa yfir sjálfstæði.

Áratugagömul átök

Hari Singh, þá prins, var hindúi. Flestir íbúanna voru hins vegar múslimar. Þar af leiðandi ákvað hann að sameinast hvorugu ríkinu. Sú ákvörðun hélt ekki lengi en Pakistanar réðust inn í héraðið í október 1947. Singh bað Indverja um hjálp, flúði til Indlands og undir­ritaði samning um að ríkið skyldi verða hluti af Indlandi.

Við tók fyrsta stríð Pakistana og Indverja um svæðið sem lauk árið 1949 en Pakistönum hafði þá tekist að vinna hluta Kasmír. Næsta stríð braust svo út árið 1965 og stóð yfir í um mánuð. Þúsundir létu lífið áður en Sameinuðu þjóðirnar komu á vopnahléi. Engin varanleg tilfærsla varð á hinum eiginlegu landamærum. Landamærin eru eiginleg en ekki opinber þar sem bæði ríki gera tilkall til svæðisins alls.

Indland og Pakistan eiga sum sé ekki gott samband og er Kasmír eitt helsta deiluefnið. Á áttunda áratugnum, þegar margur óttaðist kjarnorkustríð á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, hófu ríkin tvö kjarnorkukapphlaup. Indverjar sprengdu sína fyrstu kjarnorkusprengju í tilraunaskyni árið 1974 og Pakistanar stuttu síðar.

Mannskæð stríð

En vopnuðum átökum var hvergi nærri lokið. Árið 1984 brutust út átök um Siachen-jökulinn sem stóðu yfir þangað til 2003. Þúsund létust í orrustum áður en vopnahléi var komið á. Það vopnahlé er enn í gildi í dag þótt gegn því hafi margoft verið brotið undanfarin fimmtán ár.

Á sama tíma og átök geisuðu um Siachen fóru aðskilnaðarhreyfingar og hryðjuverkasamtök, meðal annars al-Kaída, að gera vart við sig í indverska Kasmír. Þau átök hófust 1989 og standa yfir enn í dag. Á þriðja tug þúsunda hafa dáið.

Árið 1999 ákváðu Pakistanar, í skugga átaka Indverja við skæruliða, að innlima Kargil í indverska Kasmír. Indverjar náðu svæðinu aftur eftir tveggja mánaða stríð sem kostaði nærri 2.000 manns lífið.

Mikil spenna hefur ríkt í samskiptum Indlands og Pakistans undanfarna daga vegna Kasmír.Vísir/EPA

Stympingar og óeirðir

Indverjar og Pakistanar hafa sömuleiðis háð orrustur um Kasmír á síðustu árum. Árin 2014 og 2015 voru ítrekaðar stympingar við hin eiginlegu landamæri og féllu á annað hundrað. Óeirðir brutust svo út í indverska Kasmír í júlí 2016 og stóðu yfir fram í febrúar vegna hernaðarvæðingar og andláts Mujahideen-liðans Burhan Wani í skotbardaga við indverska hermenn. Fimm her- og lögreglumenn féllu og að minnsta kosti 120 almennir borgarar.

Eins og staðan er í dag halda Indverjar 45 prósentum svæðisins og kalla ríki sitt þar Jammu og Kasmír. Pakistanar halda 35 prósentum sem þeir kalla Azad Kasmír, Gilgit og Baltistan. Kínverjar eiga líka hlut að máli og halda tuttugu prósentum í héraði sem þeir kalla Aksai Chin.

 

Togstreitan magnast

Undanfarnar tvær vikur hefur togstreitan á milli kjarnorkuveldanna tveggja aukist gríðarlega, eða allt frá því að liðsmaður hryðjuverkasamtakanna Jaish-e-Mohammed (JeM), drap fjörutíu indverska hermenn í Pulwama í indverska Kasmír.

Indverjar kenna Pakistönum að hluta um árásina. Segja að þeir ættu að hafa upprætt starfsemi JeM, sem eru starfrækt í Pakistan, fyrir löngu. Síðan þá hafa Indverjar sagst hafa gert loftárás á þjálfunarbúðir JeM, hermenn hafa skotið hvorir á aðra á hinum eiginlegu landamærum í Kasmír og Pakistanar sagst hafa gert loftárásir á indverska hluta Kasmír auk þess að þeir hafi grandað tveimur indverskum herflugvélum og handtekið flugmann.

Ákveðinn rauður þráður í þessu orðaskaki er að annað ríkið fullyrðir eitthvað um árás sem hitt ríkið segir svo að séu ósannindi. 

Pakistanar sögðu Indverja ekki hafa fellt neina í þjálfunarbúðaárásinni, Indverjar segja Pakistana hafa verið hrakta á brott áður en þeir náðu að gera loftárás og segja þá hafa skotið niður eina flugvél en ekki tvær.

Óljós framtíð

En þrátt fyrir að Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, hafi leyst flugmanninn úr haldi í gær segjast herforingjar beggja ríkja enn í viðbragðsstöðu og staðan er enn svört. 

Pakistanar halda því fram að Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, sé að reyna að stofna til átaka svo hann haldi sæti sínu eftir kosningar í vor. Þá ríkir einnig óánægja með Modi og flokk hans, BJP, í heimalandinu. Að minnsta kosti á meðal stjórnarandstöðunnar, sem sakar Modi um að „stjórnmálavæða fórnir hermanna“.

Abhinandan Varthaman, herflugmaðurinn sem Pakistanar handtóku, kom til Indlands í gær og sagðist himinlifandi með þá góðu meðferð sem hann fékk í Pakistan. Narendra Modi nýtti tækifærið og sagði að atburðir undanfarinna daga hefðu þjappað þjóðinni saman. Mikil óvissa er um næstu skref en Bretar, Bandaríkjamenn, Kínverjar, ESB og fleiri hafa hvatt til friðar og viðræðna í stað átaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×