Erlent

Sitjandi forseta mótmælt í Alsír

Andri Eysteinsson skrifar
Forsetinn Bouteflika sést hér á kjörstað í þingkosningum 2017.
Forsetinn Bouteflika sést hér á kjörstað í þingkosningum 2017. Getty/NurPhoto
Áform sitjandi forseta Alsír, Abdelaziz Bouteflika um að gefa kost á sér í komandi forsetakosningum og freista þess að sitja fimmta kjörtímabilið, hafa fallið í grýttan jarðveg meðal fólks í landinu. Stórir hópar fólks hafa safnast saman og mótmælt forsetanum sem er 82 ára gamall. CNN greinir frá.

Abdelaziz Bouteflika tók við forsetaembættinu af Liamine Zeroual árið 1999 og hefur setið fastast síðan. Bouteflika hefur þó ekki látið mikið á sér kræla frá því að hann fékk heilablóðfall árið 2013, fjöldi Alsíringa lítur því svo á að Bouteflika stjórni í raun ekki landinu, heldur geri það hópur hátt settra borgara og hermanna.

Fresturinn til að tilkynna framboð rennur út í kvöld og er búist við töluverðum óeirðum. Undanfarnar vikur hafa þúsundir, að mestum hluta ungt fólk, flykkst á götur út og mótmælt. Slagorð á borð við „Þið eruð þjófar, þið eyðilögðuð landið“, og „Nei við fimmta kjörtímabilinu“ hafa heyrst á strætum Algeirsborgar og víðar, þar á meðal handan hafsins en íbúar Parísar og Marseille, af alsírskum ættum, hafa mótmælt í þeim borgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×