Innlent

Minni fækkun farþega en spáð hafði verið

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðamönnum fækkaði á Keflavíkurflugvelli en minna en gert var ráð fyrir.
Ferðamönnum fækkaði á Keflavíkurflugvelli en minna en gert var ráð fyrir. Vísir/Jóhann K.
Rúm hálf milljón farþega fór um Keflavíkurflugvöll í febrúar en það var 6,5% minna en í sama mánuði í fyrra. Engu að síður var samdrátturinn minni en Isavia hafði spáð. Íslenskum farþegum fjölgaði um tæpt prósent.

Í frétt á vef Isavia kemur fram að gert hafði verið ráð fyrir 13% samdrætti í febrúar í farþegaspá fyrirtækisins fyrir árið 2019. Alls fóru 508.183 farþegar um flugvöllinn í febrúar.

Íslenskir ferðamenn voru tæplega fimm þúsund fleiri en Isavia hafði gert ráð fyrir í febrúar, 13,1% meira en farþegaspáin gerði ráð fyrir. Þeir voru 40.575 og fjölgaði um 0,9% frá því í fyrra. Íslenskum ferðamönnum fjölgaði um 2,4% í janúar og febrúar en spáð hafði verið að þeim fækkaði um 3,8%.

Erlendir ferðamenn voru einnig fleiri en spáð hafði verið. Alls komu 149.004 í febrúar og var það 6,9% færri en í sama mánuði í fyrra en 11,8% fleiri en spáð hafði verið. Fyrstu tvo mánuði ársins fækkaði erlendum ferðamönnum um 6,4% á milli ára, nokkuð minna en þau 8,9% sem gert var ráð fyrir í farþegaspánni.

Aftur á móti fækkaði tengifarþegum meira en spáð var. Þeim fækkaði um 11,9% í janúar og febrúar miðað við sömu mánuði í fyrra en farþegaspáin gerði ráð fyrir 6,6% fækkun. Komu- og brottfararfarþegum fækkaði um 3,8% á sama tíma en spáin gerði ráð fyrir 8,9% fækkun.

„Heildarfjöldi farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll nú í febrúar var nokkuð meiri en gert var ráð fyrir í farþegaspá Isavia en nokkuð minni en spáð var í janúar. Á grundvelli þess mætti mögulega færa rök fyrir því að farþegaspáin ætti heldur að vera metin almennt yfir heilt ár en mánuð fyrir mánuð,“ segir í frétt Isavia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×