Viðskipti innlent

Kominn með um sex milljarða hlut í Marel 

Hörður Ægisson skrifar
Sjóðurinn keypti fyrir um 2,3 milljarða í Marel í síðustu viku.
Sjóðurinn keypti fyrir um 2,3 milljarða í Marel í síðustu viku. Fréttablaðið/EPA
Fjárfestingasjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital heldur áfram að bæta verulega við sig í Marel en í síðustu viku keypti sjóðurinn tæplega fimm milljónir hluta, að virði um 2.300 milljónir króna, í félaginu. Teleios Capital hefur á aðeins nokkrum vikum eignast samtals 1,8 prósenta hlut í Marel, sem gerir sjóðinn að ellefta stærsta hluthafa fyrirtækisins, en miðað við núverandi gengi bréfa félagsins er markaðsvirði eignarhlutar sjóðsins rúmlega 5,7 milljarðar króna.

Þá hefur bandaríski fjárfestingasjóðurinn Smallcap World Fund, sem er í stýringu American Funds, bætt við sig um 1,5 milljónum hluta, að virði um 700 milljónir, og á núna orðið 2,2 prósenta hlut í Marel.

Fjöldi íslenskra lífeyrissjóða, sem eiga núna samanlagt um 41 prósent alls hluthafafjár í Marel, hafa minnkað lítillega við hlut sinn í Marel á undanförnum vikum og þá hafa einnig tveir hlutabréfasjóðir í stýringu Stefnis selt sem nemur samtals 0,7 prósenta hlut í félaginu frá því um miðjan janúar.

Teleios Capital, sem var stofnaður 2013, var með eignir upp á samtals um einn milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði um 120 milljarða íslenskra króna, í stýringu síðastliðið haust en sjóðurinn fjárfestir einkum í skráðum evrópskum félögum í Norður- og Norðvestur-Evrópu.

Hlutabréfaverð Marels hefur hækkað um liðlega 26 prósent frá áramótum. Félagið er langsamlega verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á rúmlega 319 milljarða króna.




Tengdar fréttir

Bætir við sig í Marel fyrir um milljarð

Fjárfestingasjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital bætti í liðinni viku við sig ríflega tveimur milljónum hluta í Marel, að virði um 940 milljónir króna, og fer nú með samanlagt 7,3 milljónir hluta í félaginu, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa þess.

Vogunarsjóður kaupir í Marel fyrir 2 milljarða 

Evrópski sjóðurinn Teleios Capital hefur eignast 0,77 prósenta hlut í Marel. Kom fyrst inn í hluthafahóp félagsins í byrjun síðustu viku. Fjárfestir einkum í skráðum fyrirtækjum í Norður-Evrópu með markaðsvirði undir þremur milljörðum dala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×