Innlent

Langt síðan jafn öflugt þrumuveður hefur farið yfir höfuðborgarsvæðið

Birgir Olgeirsson skrifar
Mynd sem tekin var af eldingu í gærkvöldi.
Mynd sem tekin var af eldingu í gærkvöldi. Mynd/Freyja Fönn
Hundrað eldingar mældust yfir Íslandi í gærkvöldi þegar óvenju öflugt þrumuveður gekk yfir suðvestanvert landið.

„Það er langt síðan svona öflugt þrumuveður hefur farið yfir höfuðborgarsvæðið,“ segir Þórður Arason, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sem hefur farið yfir mælingar á þessu veðri.

Þrumubakkinn átti uppruna sinn langt sunnan úr hafi, um þúsund kílómetra frá Íslandi, en náði inn til landsins upp úr klukkan hálfsex í gær.

Þórður segir mælingar sýna hvernig þrumuveðrið fór að nálgast landið um þrjúleytið aðfaranótt gærdagsins. Þrumubakkinn sótti í sig veðrið upp úr hádegi í gær en ákefð hans jókst til muna þegar hann náði til landsins upp úr hálfsex.

Hann segir talninguna sýna að fjöldi eldinganna yfir Íslandi hafi verið akkúrat hundrað talsins.

„Náttúran vill stundum hafa þetta í sléttum tölum,“ segir Þórður.

Þrumubakkinn fór upp eftir Reykjanesskaga, fór sína leið norður eftir Faxaflóa og að Snæfellsnesi þar sem hann dó út.

Hann segir að langflestar eldingarnar í þessu veðri hafi ekki náð til jarðar, en þegar þær gera það geta þær valdið talsverðu tjóni og geta reynst fólki og dýrum lífshættulegar.


Tengdar fréttir

Eldingaveðrið óvenju öflugt

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu tóku allflestir eftir óvenju öflugu eldingaveðri sem gengur nú yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×