Skoðun

Neyð loðið hugtak

Davíð Þorláksson skrifar
Donald Trump hefur sagt að hann muni lýsa yfir neyðarástandi til að fá vald til að veita fé úr almannavarnasjóði til byggingar landamæraveggjar sem hann lofaði að Mexíkó myndi greiða. Það er auðvitað ekkert neyðarástand. Fólk í leit að betra lífi reynir að komast til Bandaríkjanna þar sem það eykur hagvöxt og auðgar menningu. Hert landamæraeftirlit undanfarinna áratuga hefur haft öfug áhrif við það sem að var stefnt. Í stað þess að farandverkamenn komi og fari yfir landamærin eftir þörfum þá kemur fólk til Bandaríkjanna og snýr ekki aftur af ótta við að komast ekki þangað aftur. Trump ýtir undir útlendingaandúð til að sameina fólk að baki sér. Þetta er gamalt trikk popúlista.

Þessi staða er góð áminning um mikilvægi þess að takmarka völd stjórnmálamanna. Þegar þeim eru veitt völd með stjórnarskrá eða lögum er gjarnan gert ráð fyrir að þeim verði beitt með þjóðarhag í huga. Dæmin sanna að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því. Eins manns þjóðarheill er annars þjóðarböl. Í Bandaríkjunum hafa forsetar beitt slíku valdi til að setja saklausa borgara af japönskum ættum í fangabúðir í seinni heimsstyrjöldinni og til að leyfa pyntingar eftir hryðjuverkaárásirnar 2001.

Á Íslandi eru borgararnir varðir gegn ofríki stjórnmálamanna með stjórnarskrá, ekki síst mannréttindaákvæðunum. Á þeim eru þó stundum undantekningar, t.d. ef almenningsþörf krefur. Með dómum Hæstaréttar hefur löggjafanum (stjórnmálamönnum) svo verið eftirlátið að skilgreina þessa almenningsþörf. Það er brýnt að við verðum á varðbergi, ekki síst vegna vaxandi áhrifa popúlista í nágrannalöndum okkar.




Skoðun

Sjá meira


×