Viðskipti innlent

„Mannleg mistök“ settu sófa á útsölu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Húsgagnahöllin segir tölvukerfi sitt ekki bjóða upp á að nálgast nauðsynleg gögn sem hefðu getað rennt stoðum undir útskýringar verslunarinnar.
Húsgagnahöllin segir tölvukerfi sitt ekki bjóða upp á að nálgast nauðsynleg gögn sem hefðu getað rennt stoðum undir útskýringar verslunarinnar. Vísir/GVA
Neytendastofa telur Húsgagnahöllina hafa farið á svig við lög þegar verslunin auglýsti sófa á afslætti undir lok síðasta árs. Húsgagnahöllinni tókst ekki að færa sönnur á að umræddur sófi, blár þriggja sæta Mexíkó Vic Navy-sófi, hafi nokkurn tímann verið seldur á fyrra verði. Hefur versluninni því verið bannað að viðhafa þessa viðskiptahætti áfram.

Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að stofnunni hafi borist ábendingar um að erfitt væri að sjá að Húsgagnhöllin hafi nokkurn tímann selt sófann á tilgreindu fyrra verði, sem var 79.900 krónur. Fór Neytendastofa því fram á að verslunin myndi útskýra hvernig á þessu gæti staðið.

Í svörum Húsgagnahallarinnar kom meðal annars fram að félagið hafi skýrar verklagsreglur um afslætti og tilboð. Í þeim tilvikum sem afslættir séu ekki á ákveðnum vörum, heldur heilum vöruflokkum, beri starfsmönnum að sýna sérstaka varkárni og yfirfara kjör á hverri einustu vöru.

Hér má sjá Mexíkó sófa, sem þó er aðeins 2,5 sæti.Húsgagnahöllin
Þau tölvukerfi sem Húsgagnahöllin búi yfir geti hins vegar ekki aðstoðað í þessum efnum „og því þurfi mannshöndin að koma að slíkum verkefnum,“ eins og segir í svari verslunarinnar. „Eins og gefi að skilja sé alltaf hætta á mannlegum mistökum í þessum efnum.“

Umræddur sófi hafi þannig ekki átt að vera á afsláttarkjörum samkvæmt framangreindu tilboði heldur átti hann að vera á fullu verði, enda hafi hann hvergi verið auglýstur sértaklega sem afsláttarvara. „Mannleg mistök hafi orðið við uppfærslu á vef félagsins sem leiddu til þess að umræddur sófi var ranglega merktur sem afsláttarvara, þrátt fyrir framangreindar verklagsreglur félagsins,“ segir í ákvörðun Neytendastofu og vísað til svara Húsgagnahallarinnar.

Þrátt fyrir þessar útskýraringar ítrekar Neytendastofa að vörur þurfi alltaf að hafa verið seldar á fyrra verði. Fyrirtæki þurfi að geta sýnt fram á að svo hafi verið, til að mynda með kvittunum eða gögnum úr bókhaldi. Það hafi Húsgagnhöllinni hins vegar ekki tekist.

„Það að mannleg mistök hafi átt sér stað hefur ekki áhrif á það hvort um brot sé að ræða gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu,“ segir Neytendastofa sem taldi því rétt að banna Húsgagnahöllinni að viðhafa þessa viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×