Skoðun

Tölum um #samræmd próf

Ragnar Þór Pétursson skrifar
Eins og flestum er kunnugt stendur nú yfir samráð um breytinga á lögum um menntun kennara. Þegar þetta er skrifað hafa fimm athugasemdir borist í samráðsgátt. Til samanburðar hafa borist átta athugasemdir um nýtt frumvarp um dýrasjúkdóma og þrettán athugasemdir um breytingu á byggingareglugerð. Með fullri virðingu fyrir dýrasjúkdómum og byggingareglugerðum þá vona ég að niðurstaðan verði sú að áhugi á fyrirkomulagi kennaramenntunar sé eitthvað meiri en á þessum málum. Á sama tíma eru athugasemdir um breytingu klukkunnar eru orðnar 1274!

Að því sögðu langar mig að gera samræmd próf að umtalsefni. Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið hópur að störfum við að skoða framkvæmd, tilgang og uppbyggingu samræmdra prófa. Ég reikna með að hópurinn skili fljótlega af sér skýrslu. Það væri afar æskilegt ef þeirri skýrslu yrði mætt með öflugri, faglegri umræðu.

Ég var svo heppinn að fá að koma í mýflugumynd að vinnunni þegar ég var í fjölbreyttum hópi skólafólks sem hittist á vinnufundi til að ræða nokkrar grundvallarspurningar um samræmd próf. Nú hef ég verið býsna gagnrýninn í garð prófanna en það kom á óvart að niðurstöður flestra á fundinum voru býsna afgerandi og nánast samhljóða. Miðað við vinnufundinn telur skólafólk á íslandi að samræmd próf hafi að mestu leyti gengið sér til húðar. Þau mæli ekki vel það sem þeim er ætlað að mæla og þau skapi ýmsa óheilbrigða hvata í íslensku skólakerfi.

Að því sögðu tóku margir undir mikilvægi þess að til staðar séu traustir mælikvarðar á gæði íslensks skólastarfs. Því er auðvitað að einhverju leyti mætt með innra og ytra mati á skólastarfi (þannig á það allavega að vera) en það kann vel að vera að skólastarf græddi á því að til væru mælitæki sem kennarar gætu markvisst beitt í starfi sínu. Ég hef heyrt ýmsa kennara kalla á slíkt og slíkar hugmyndir svifu yfir vötnum á vinnufundinum einnig.

Hugleiðum augnablik þversögina milli samræmdra prófa og lesferilsprófanna. Annað er skylda, hitt ekki. Umtalsvert fleiri börn taka samt lesferilspróf en fara í samræmd próf!

Ég geri ráð fyrir að á því kunni að vera þrjár málefnalegar skýringar. Í fyrsta lagi er eflaust stærri hópur sem erindi á í lesferilspróf en samræmd próf. Í öðru lagi hafa skólastjórnendur og skólayfirvöld víða þrýst á um að lesferill sé notaður. Í þriðja lagi (og þetta er atriði sem er allrar virðingar vert) vill fjöldi kennara hafa áreiðanlega mæla til að sjá framfarir í lestri. Ef lesferli er rétt beitt getur hann orðið öflugt hjálpartæki í verkfærakistu faglegs kennara.

Auðvitað er lesferilspróf ekki gallalaust.Öflugur fagmaður veit samt hvað prófið gerir ekki. Prófin eru einfaldlega píptest í lestri. Nemendur lesa eins hratt og þeir mögulega geta án þess að sprengja sig í dálítinn tíma. Ef þeim gengur vel eru ákveðin tækniatriði lestrar væntanlega í góðu lagi.

Hættan við svona próf er sú að fólk leggi á þau of mikla áherslu. Það er hvorki æskilegt né eðlilegt að þjálfa upp kynslóð sem les með þeim hætti sem lesferilsprófin gera kröfu um. Þau mæla hvorki áheyrileika né túlkun. Á báðum jöðrum hraðakvarðans er lesturinn afskræmdur. Það er algert grundvallaratriði að öðrum þáttum lestrar sé sinnt samhliða og með fram hraðlestri. Sé kennari meðvitaður um þetta getur ferillinn verið gott tæki.

Á umræðufundi um samræmd próf var það sjónarmið mest áberandi að lesferillinn væri dæmi um tiltölulega vel heppnað matstæki á meðan samræmdu prófin í núverandi mynd væru slæmt matstæki. Á flestum borðum var áherslan sú að Menntamálastofnun skyldi framleiða fjölbreytt matstæki sem kennarar gætu beitt í störfum sínum – og að leggja skyldi samræmd próf í núverandi mynd niður.

Með þetta veganesti tók starfshópurinn til starfa og ég veit ekki betur en að hann eigi að skila af sér hvað úr hverju. Það verður spennandi að sjá hvaða tillögur hópurinn leggur fram og hversu djarfar þær verða. Hópurinn er að sjálfsögðu ekki bundinn af tillögum vinnufundarins – en persónulega bind ég við hann töluverðar vonir.

Í öllu falli verða tillögurnar að fá þróttmikla umfjöllun í samfélaginu. Ég segi kannski ekki að þær þurfa að verða jafn fyrirferðarmiklar og þrasið um breytingu klukkunnar – en fjandakornið ef umræða um dýrasjúkdóma og reglugerðarbreytingar í byggingariðnaði skákar faglegri umræðu um menntamál. Þá erum við býsna illa stödd.

Höfundur er formaður Kennarasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×