Viðskipti innlent

Sameiningin auki virði Haga um tíu prósent

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Greinendur Capacent meta gengi hlutabréfa í Högum á 60,6 krónur á hlut í nýju verðmati eða allt að 38 prósent hærra en markaðsgengi bréfanna eins og það var eftir lokun markaða í gær. Telja þeir kaup smásölurisans á Olís, sem gengu í gegn í lok nóvember í fyrra, auka virði félagsins um 10 prósent.

Í verðmati ráðgjafarfyrirtækisins, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er bent á að lægri framlegð og minni sala á þriðja ársfjórðungi rekstrarárs félagsins – frá ágúst til nóvember í fyrra – skýri lakari afkomu Haga á tímabilinu. Ljóst sé að félagið hafi ekki komið allri gengisveikingu krónunnar strax út í verðlag. Þá bendi flest til þess að lægri framlegð sé til marks um aukna samkeppni á smásölumarkaði.

Greinendur Capacent nefna að við kaup Haga á Olís muni velta félagsins aukast um ríflega 40 prósent og verða, samkvæmt áætlun Capacent, um 108,6 milljarðar króna fyrsta heila starfsárið. Sameiningin bjóði upp á töluverða möguleika til hagræðingar og þá geti tækifæri falist í breiðu vöruúrvali og þróun netverslunar.

Verðmat sérfræðinga Capacent á sameinuðu félagi hljóðar upp á 73,5 milljarða króna, eða sem samsvarar 60,6 krónum á hlut, en til samanburðar er verðmat á óbreyttum rekstri Haga um 55,2 krónur á hlut. Nemur munurinn um tíu prósentum. Greinendurnir taka þó fram að mikil óvissa ríki enn um rekstur sameinaðs félags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×