Viðskipti innlent

Sýknaðir af kröfum LS Retail í lógódeilu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Landsréttur hafnaði kröfum hugbúnaðarfyrirtækisins um að viðurkenndur yrði réttur þess til þess að hengja vörumerki sitt utan á stigahúsin fyrir ofan vörumerki Íslandsbanka sem yrði þá fært neðar.
Landsréttur hafnaði kröfum hugbúnaðarfyrirtækisins um að viðurkenndur yrði réttur þess til þess að hengja vörumerki sitt utan á stigahúsin fyrir ofan vörumerki Íslandsbanka sem yrði þá fært neðar. vísir/vilhelm
Landsréttur sýknaði í síðustu viku Norðurturninn og Íslandsbanka af kröfum LS Retail sem hafði meðal annars krafist ógildingar á þeirri ákvörðun stjórnar skrifstofuturnsins að bankinn mætti einn leigutaka hengja vörumerki sitt utan á stigahús byggingarinnar.

Jafnframt hafnaði Landsréttur kröfum hugbúnaðarfyrirtækisins um að viðurkenndur yrði réttur þess til þess að hengja vörumerki sitt utan á stigahúsin fyrir ofan vörumerki Íslandsbanka sem yrði þá fært neðar.

Harðar deilur spruttu upp um merkingar á byggingunni, sem er við Smáralind í Kópavogi, eftir að Íslandsbanki flutti þangað haustið 2016 og kvörtuðu aðrir leigutakar í turninum, þar á meðal LS Retail, sárlega yfir þeirri ákvörðun stjórnar Norðurturnsins að leyfa bankanum einum að setja lógóið sitt á stigahús turnsins.

Hugbúnaðarfyrirtækið var fyrsti leigutakinn sem gekk til samninga við Norðurturninn í nóvember árið 2015.

Héraðsdómur sýknaði Norðurturninn og bankann af kröfum LS Retail síðasta vor og hefur Landsréttur staðfest þá niðurstöðu. Rétturinn bendir á að fyrirtækið geti ekki átt aðild að kröfu um ógildingu ákvörðunar stjórnar turnsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×