Innlent

Búið að opna veginn um Hellisheiði

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Hellisheiði.
Frá Hellisheiði. Vísir/Vilhelm
Búið er að opna veginn um Hellisheiði en honum var lokað um miðnætti sökum ófærðar. Vegagerðin lokaði veginum um Hellisheiði og Þrengslin í nótt en vegurinn um Þrengslin var opnaður fyrr í morgun.

Samkvæmt upplýsingum um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar er ófært í Kjósarskarði og á Krýsuvíkurvegi. Snjóþekja er á Grindarvíkurvegi. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja og eitthvað um skafrenning á flestum öðrum leiðum.

Fróðárheiði er lokuð vegna veðurs. Ófært er við Hafursfell. Þungfært er á Bröttubrekku og Svínadal en þæfingsfærð í Borgarfirði. Þæfingsfærð, hálka eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum.

Lokað er á Hálfdán, Mikladal og Klettsháls, beðið með mokstur. Þungfært er á Kleifarheiði, í Reykhólasveit, einnig á Steingrímsfjarðarheiði og á Strandavegi. Ófært er á Þröskuldum. Þæfingsfærð er á Innstrandarvegi og í Ísafjarðardjúpi og beðið með mokstur.

Þæfingsfærð og snjókoma er á Öxnadalsheiði og á Grenivíkurvegi. Ófært er í Héðinsfirði, á Siglufjarðarvegi og í Víkurskarði. Snjóþekja eða hálka og snjókoma er á flestum öðrum leiðum.

Ófært er í Ljósavatnsskarði, Tjörnesi, Hófaskarði og Hálsum og beðið með mokstur á þessum leiðum. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum einnig á Vopnafjarðarheiði og verða aðstæður kannaðar um hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×