Innlent

Bætir í norðan­hríðina á Norð­austur­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er snjókoma eða éljum á landinu norðanverðu.
Spáð er snjókoma eða éljum á landinu norðanverðu. vísir/hanna
Veðurstofan spáir að það muni bæta í norðanhríðina á Norðausturlandi í kvöld og nótt. Megi því búast við varasömum akstursskilyrðum á því svæði, sér í lagi á fjallvegum.

Útlit er fyrir öflugum vindhviðum, 15 til 23 metrum á sekúndu, undir Vatnajökli í kvöld og nótt og er vegfarendum bent á að fara varlega og fylgjast með veðurspám og ástandi vega.

Spáð er snjókoma eða éljum á landinu norðanverðu, en hægari og bjart með köflum syðra. Frost víða 0 til 5 stig, en frostlaust syðst.

„Norðan 10-18 m/s í fyrramálið, hvassast SA-til, og éljagangur, en léttskýjað sunnan heiða. Hægari og úrkomuminna seinni partinn og kólnar heldur,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Austlæg átt, 8-15 m/s og skýjað með köflum, en 15-23 með S-ströndinni þegar líður á daginn og stöku él syðst. Hiti 0 til 5 stig syðra, en frost annars 1 til 6 stig.

Á miðvikudag: Gengur í austanstorm með talsverðri rigningu eða slyddu, en snjókomu til fjalla. Lengst af úrkomulítið fyrir norðan. Dregur talsvert úr vindi og úrkomu þegar líður á daginn. Heldur hlýnandi veður.  

Á fimmtudag og föstudag: Allhvöss eða hvöss sunnanátt með rigningu, en þurrt að kalla fyrir norðan. Fremur hlýtt í veðri.  

Á laugardag: Útlit fyrir að lægi og kólni með slyddu eða snjókomu A-lands, en annars þurrt að kalla.  

Á sunnudag: Útlit fyrir hæga vinda og bjartviðri, en vaxandi suðaustanátt með rigningu eða slyddu SV-til um kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×