Viðskipti innlent

90 prósent mjólkurframleiðenda vilja halda í kvótakerfið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Boðað var til atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðanda um framtíð kvótakerfis. Þessi mjólkurframleiðandi var ekki með kosningarétt.
Boðað var til atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðanda um framtíð kvótakerfis. Þessi mjólkurframleiðandi var ekki með kosningarétt. Vísir/MHH
Rúmlega 89 prósent mjólkurframleiðenda eru mótfallin því að kvótakerfið verði afnumið í mjólkurframleiðslu. Greint er frá niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á heimasíðu Bændasamtakanna. 493 mjólkurframleiðendur greiddu atkvæði og nam þátttaka um 88 prósentum.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð yfir í eina viku. Henni lauk í hádeginu í dag. Fram kemur að atkvæðagreiðslan hafi farið fram í samræmi við ákvæði gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Hver mjólkurframleiðandi hafi haft eitt atkvæði án tillits til fjölda aðstandenda að búinu, aðildar að Bændasamtökum Íslands eða Landssambandi kúabænda.

50 mjólkurframleiðendur vilja afnema kvótakerfið eða um 10 prósent. 441 eru því mótfallnir. Tveir tóku ekki afstöðu.

„Niðurstaðan er stefnumarkandi fyrir fulltrúa bænda við endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar sem fram fer síðar á þessu ári. Nú verða áherslur mótaðar í ljósi þessarar niðurstöðu og stefnumörkunar um aðra þætti samningsins sem koma þurfa til endurskoðunar,“ segir á heimasíðu Bændasamtakanna.

Alls voru 558 framleiðendur á kjörskrá. Alls kusu 493 eða 88,35%.


Tengdar fréttir

Hvorki KÚ né Arna ætla að hækka mjólkurverð

Hvorugur mjólkuframleiðandinn ætlar sér að hækka verð á mjólkurafurðum til neytenda, en annar þeirra gagnrýnir ákvörðun verðlagsnefndar búvara um hækkanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×