Skoðun

Birting dóma þegar þolendur eru börn

Salvör Nordal skrifar
Umboðsmaður barna hefur á síðustu árum ítrekað vakið máls á því hvernig birtingu dóma sem varða börn er háttað. Sérstaklega hefur verið bent á að dómar þar sem börn eru þolendur t.d. í kynferðisafbrotamálum gangi oft nærri friðhelgi barna og persónuvernd með nákvæmum atvikalýsingum, ítarlegum lýsingum á líðan barna eða að vitnað sé beint í viðkvæmar upplýsingar sem fram hafa komið í viðtölum sálfræðinga eða sérfræðinga Barnahúss við börn. Þrátt fyrir að nafnleyndar eigi að gæta hefur nafnhreinsun ekki alltaf verið sem skyldi og einnig vandkvæðum bundið að tryggja brotaþolum per­­són­u­vernd og frið­helgi einka­lífs, þrátt fyrir nafnleynd, t.d. í málum sem tengjast fámennum sveitarfélögum.

Þann 30. maí á síðasta ári héldu umboðsmaður barna og dómstólasýslan fund með fulltrúum réttarvörslukerfisins og helstu stofnunum og félagasamtökum sem gæta hagsmuna barna. Á fundinum var farið yfir reglur um birtingu dóma og framkvæmdina hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum en ljóst er að mun lengra er gengið hér á landi þegar dómar eru birtir en í nágrannalöndunum. Einnig voru rædd raunveruleg dæmi og upplýsingar úr dómum sem varða börn og greindi meðal annars ungur þolandi kynferðisafbrots frá reynslu sinni í þessum efnum. Ljóst er af þessum dæmum að birting nákvæmra atvikalýsinga í dómum geta valdið börnum miklum sársauka og endurteknum áföllum.

Umræðunni á fundinum var ætlað að vera mikilvægt innlegg í þá vinnu sem dómstólasýslan hefur haft með höndum um að samræma reglur við birtingu dóma og gæta hagsmuna barna. Liður í þessari vinnu var að treysta lagagrunn slíkra reglna og kynnti dómsmálaráðherra í því skyni í haust frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla og lögum um meðferð sakamála (birting dóma og myndatökur í dómhúsum) sem meðal annars sneri að því að tryggja friðhelgi barna og persónuvernd við birtingu dóma. Nú hefur verið ákveðið að taka málið af málaskrá Alþingis í ár og mun því enn frekar dragast að mikilvæg vernd barna verði tryggð.

Umrætt frumvarp varðaði fleiri þætti en vernd barna og vöktu þeir þættir talsverða umræðu sem umboðsmaður barna tekur ekki afstöðu til. Aftur á móti áréttar embættið mikilvægi þess að dómstólar breyti því verklagi sem hér hefur tíðkast um árabil og hefur valdið börnum miklum sársauka enda kveður Barnasáttmálinn á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stofnanir, dómstólar, stjórnvöld og löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Embættið skorar því á dómsmálaráðherra að endurskoða umrædda ákvörðun og leggja fram frumvarp á Alþingi sem hefur þann megintilgang að tryggja hagsmuni barna og vernd þeirra gegn birtingu viðkvæmra og persónugreinanlegra upplýsinga úr dómsmálum.

Höfundur er umboðsmaður barna




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×