Innlent

Konu bjargað úr fjörunni við Þorlákshöfn

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Björgunarsveitir í Árnessýslu auk sjúkraflutningamanna á Suðurlandi voru kallaðar út um hádegisbil eftir að tilkynning barst um að fólk væri í sjónum í fjörunni nærri Þorlákshöfn.

Mikill viðbúnaður var vegna tilkynningarinnar og var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang en um tíma var talið að minnsta kosti tveir, kona og maður, væru í sjónum. Síðar kom í ljós að enginn lenti í sjónum en að konan lægi slösuð í fjörinni neðan við háa kletta.

Vegna alvarleika tilkynningarinnar voru björgunarbátar settir á flot og fleiri bátar frá Suðurnesjum kallaðir út.

Aðstæður þar sem konan var voru erfiðar. Klettar, mikil ísing og mikill sjógangur. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar komst að konunni þar sem hún var hífð um borð og flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til aðhlynningar. Upplýsingar um líðan hennar liggja ekki fyrir.

Davíð Már Björgvinsson, upplýsingarfulltrúi Landsbjargar, sagði í samtali við fréttastofu að aðgerðum væri lokið á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×