Innlent

Forvitnir ferðalangar töfðu för viðbragðsaðila um slysstað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarsveitin Mannbjörg á Þorlákshöfn beinir þeim tilmælum til fólks að halda aftur af forvitninni þegar björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar eru að störfum að slysstað. Forvitni fólks torveldaði björgunarstörf í fjörunni nærri Þorlákshöfn í dag.

Björgunarsveitir í Árnessýslu auk sjúkraflutningamanna á Suðurlandi voru kallaðar út um hádegisbil eftir að tilkynning barst um að fólk væri í sjónum í fjörunni nærri Þorlákshöfn. Síðar kom í ljós að enginn lenti í sjónum en að konan lægi slösuð í fjörinni neðan við háa kletta.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og var konann hífð um borð og flutt á slysadeild Landspítalans í Fossvogi til aðhlynningar.

Í færslu um aðgerðirnar á Facebook-síðu Mannbjargar segir að samvinna viðbragðsaðila hafi verið góð. Það hafi hins vegar tafið för viðbragðsaðila hversu margir höfðu lagt leið sína að slysstað fyrir forvitnissakir.

„Að gefnu tilefni viljum við einnig benda almenningi á að reyna eftir fremsta megni að halda aftur af forvitninni við slíka atburði, en margir einstaklingar lögðu leið sína á svæðið á bílum sem tafði för viðbragðsaðila um svæðið, en slíkt getur haft mikil áhrif á störf þeirra á vettvangi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×