Fótbolti

Annar El Clasico án Messi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lionel Messi spilaði í gegnum meiðslin á laugardaginn en verður líklega ekki látinn gera það á morgun
Lionel Messi spilaði í gegnum meiðslin á laugardaginn en verður líklega ekki látinn gera það á morgun vísir/getty
Lionel Messi gæti misst af stórleiknum við Real Madrid annað kvöld vegna meiðsla á læri.

Barcelona mætir Real Madrid í undanúrslitum spænsku bikarkeppninnar í tveimur leikjum heima og að heiman. Fyrri leikurinn er á Nývangi annað kvöld.

Messi meiddist á læri í 2-2 jafnteflinu við Valencia um helgina en kláraði þó leikinn. Ernesto Valverde sagði eftir leikinn að meiðslin væru ekki alvarleg en nú hefur komið í ljós að þau eru aðeins verri en fyrst var haldið.

Argentínumaðurinn gat ekki tekið þátt í æfingu Barcelona í gær vegna meiðslanna og þarf að fara í frekari skoðanir. Ólíklegt er að Valverde taki áhættu með því að spila Messi á morgun því Barcelona á erfiða leikjadagskrá fram undan.

Fyrsti El Clasico leikur tímabilsins var einnig spilaður án Messi en þá var hann meiddur á olnboga. Barcelona vann þann leik auðveldlega 5-1.

Messi hefur þó sýnt hvers megnugur hann er í síðustu leikjum, hann hefur skorað mörk í síðustu níu leikjum í röð og skoraði bæði mörkin í endurkomunni gegn Valencia.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×