Innlent

Búist við að óveðrið nái hámarki í borginni á ellefta tímanum í kvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Á höfuðborgarsvæðinu hefur austan stormur gengið yfir í kvöld með mjög snörpum vindhviðum á Kjalarnesi, allt að 35 til 40 metrar á sekúndu.
Á höfuðborgarsvæðinu hefur austan stormur gengið yfir í kvöld með mjög snörpum vindhviðum á Kjalarnesi, allt að 35 til 40 metrar á sekúndu. Vísir/Egill
Búist er við að óveðrið á Suðurlandi nái hámarki á níunda tímanum í kvöld. Veðrið á suðvesturhluta landsins mun ná hámarki á ellefta tímanum í kvöld og gengur niður um miðnætti.

Austan stormur eða rok og jafnvel staðbundið ofsaveður verið á Suðurlandi í kvöld en um kvöldmatarleytið mældist mesta hviða á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 53 metrar á sekúndu. Í Vestmannaeyjum voru björgunarsveitir kallaðar út vegna foktjóns síðdegis í dag.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur austan stormur gengið yfir í kvöld með mjög snörpum vindhviðum á Kjalarnesi, allt að 35 til 40 metrar á sekúndu.

Búist er við að það muni lægja undir Eyjafjöllum og í Öræfum eftir miðnætti sem og á höfuðborgarsvæðinu.

Vegagerðin hefur gripið til lokana vegna óveðursins sem eru eftirfarandi:

Sandskeið, Hellisheiði og Þrengsli. Möguleg hjáleið: Suðurstrandavegur um Grindavík.

Hvolsvöllur – Vík: Búið er að loka milli Hvolsvallar og Víkur. - Líkleg opnun: Klukkan 01:00 e. miðnætti.

Öræfin: Gígjukvísl – Jökulsárlón. Búið er að loka. – Líkleg opnun: kl. 06.00 í fyrramálið (6. feb.)

Kjalarnes: Óvissustig frá um kl. 18:00 í dag. Líkleg opnun kl. 01:00 e. miðnætti.

Búið er að loka Mosfellsheiði, Þingvallavegi og Lyngdalsheiði.

Björgunarsveitarmenn standa vaktina við lokanir þar sem þeir sinna einnig upplýsingaskyldu fyrir vegfarendur um veður og færð og hversu lengi lokanir munu standa yfir. Davíð Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir ekki mikið um útköll það sem af er kvöldi hjá björgunarsveitarmönnum og líkast til megi það rekja til mikilla forvarna fyrir þetta óveður.

Á morgun verður veðrið fremur slæmt á Austfjörðum og Vestfjörðum og viðbúið að færð versni til muna vegna hríðarveðurs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×