Innlent

Hringvegurinn opinn og frystir aftur í kvöld

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það kólnar aftur í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Það kólnar aftur í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Vísir/vilhelm
Hellisheiðin var opnuð í nótt eftir að hún hafði verið lokuð frá því síðdegis í gær en þar er hálka samkvæmt heimasíðu Vegargerðarinnar. Þá var hringvegurinn milli Hvolsvallar og Víkur opnaður á ný í morgun. Í dag ræður hvöss norðaustanátt ríkjum og veður fer kólnandi í kvöld.

Vegum var víða lokað í gær vegna óveðurs en vegurinn um Þrengsli er nú einnig opinn og sömu sögu er að segja af Mosfellsheiði. Vegurinn um Öræfi milli Gígjukvíslar og Jökulsárlóns hefur einnig verið opnaður.

Á Lyngdalsheiði og Þingvallavegi er þó enn lokað en unnið er að mokstri. Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.

Frystir í kvöld

Í dag má svo búast við norðaustanátt, víða 13-20 m/s, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Búast má við snjókomu eða éljum, einkum um landið austanvert, en þurrt að kalla suðvestanlands. Þá kólnar með deginum en frost verður frá 0 til 5 stigum í kvöld.

Á morgun verður áfram norðaustanátt 8-15 m/s og él fyrir norðan og austan en léttskýjað suðvestanlands. Frost verður 0 til 8 stig. Svipað veður verður áfram á föstudag og laugardag en á sunnudag gengur norðanáttin líklega niður.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á fimmtudag og föstudag:

Norðaustan 8-15 m/s og él, en léttskýjað SV-til á landinu. Frost 0 til 8 stig og heldur kaldara á föstudag. 

Á laugardag:

Norðan 10-18, skýjað og snjókoma eða él N- og A-lands. Kalt áfram. 

Á sunnudag:

Minnkandi norðanátt og léttskýjað á S- og V-landi, en stöku él NA-lands. Talsvert frost. 

Á mánudag:

Vaxandi suðaustanátt SV-til á landinu, fer að snjóa undir kvöld og dregur úr frosti. Hægari vindur N- og A-lands, þurrt og áfram kalt í veðri. 

Á þriðjudag:

Suðlæg átt og rigning eða slydda, hiti 0 til 5 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×