Innlent

Fólkið fyrir vestan læk nýtti næturstrætó lítið sem ekkert

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Töluverðar tilfæringar eru vegna lokunar Gömlu Hringbrautar.
Töluverðar tilfæringar eru vegna lokunar Gömlu Hringbrautar. Strætó
Breytingar á leiðakerfi Strætó munu taka gildi á morgun, föstudaginn 8. febrúar. Stærstu breytingarnar eru vegna lokunar Gömlu Hringbrautar, en leiðir 1, 3, 5, 6 og 15 munu aka sérstaka hjáleið milli 8. febrúar og 26. mars. Á sama tíma verða töluverðar breytingar á næturstrætó og ein leið lögð niður.

Í stað þess að aka Gömlu Hringbraut til og frá Hlemmi munu leiðirnar fara um Hringbraut og Vatnsmýrarveg. Vegkaflinn á Vatnsmýrarveg milli BSÍ og Gömlu Hringbrautar lokast fyrir almenna bílaumferð og aðeins Strætó mun geta ekið þar í gegn.

Upphaflega áttu breytingarnar í kringum Gömlu Hringbraut að vera með öðru sniði. Sérstakur strætóvegur átti að vera tilbúinn og leiðir 5 og 15 áttu að aka um Barónsstíg. Framkvæmdir við Gömlu Hringbraut hafa hins vegar dregist á langinn og Barónsstígur var ekki tilbúinn fyrir strætisvagna miðað við núverandi aðstæður.

Áætlað er að breytingar á leiðakerfi í kringum Gömlu Hringbraut munu því ekki ná að taka gildi að fullu fyrr en 26.mars.

Þá taka breytingar á Næturstrætó á gildi á morgun samhliða lokun Gömlu Hringbrautar. Stærsta breytingin er sú að leið 111, sem gekk í Vesturbæ og um Seltjarnarnes, verður lögð niður. Notkun leiðarinnar yfir síðasta ár hefur verið afar dræm og því telur Strætó bs. að hagkvæmast sé að hætta akstri.

Nánari upplýsingar um breytingar á akstri Næturstrætó og lokun Gömlu Hringbrautar má lesa á vef Strætó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×