Viðskipti innlent

Viðskiptavinur Arctic Trucks sem lenti í svikamyllu fékk helmingsafslátt í sárabætur

Sighvatur Jónsson skrifar
Breyttur Hyuindai Santa Fe á Suðurskautslandinu.
Breyttur Hyuindai Santa Fe á Suðurskautslandinu.
Tölvupósti er ekki treystandi, segir framkvæmdastjóri Arctic Trucks, eftir að svindlarar komust yfir nærri 40 milljóna króna greiðslu viðskiptavinar fyrirtækisins vegna ferðar á Suðurpólinn. Tjónið er alfarið viðskiptavinarins en til að koma til móts við hann veitti Arctic Trucks helmingsafslátt á ferðinni þegar hún var greidd aftur.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að svikahrappar hafi stolið nærri 40 milljónum króna af viðskiptavini Arctic Trucks. Hann var blekktur til að greiða upphæðina inn á reikning svikaranna í stað reikning Arctic Truck vegna ferðar tveggja einstaklinga á suðurpólinn. Arctic Trucks er þekkt fyrir breytingar á jeppum en það selur einnig ökuferðir yfir suðurpólinn með ökutækjum fyrirtækisins.

Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Arctic Trucks, segir að tveir einstaklingar hafi ætlað að fara yfir Suðurpólinn og til baka á tíu dögum. Tölvuþrjótarnir komust inn í tölvupóstsamskipti og villtu um fyrir viðskiptavininum. Eftir atvikið hefur verið tekin upp svokölluð tvíþætt auðkenning þegar starfsmenn skrá sig inn í tölvupóstkerfi Arctic Trucks. Starfsmenn nota lykilorð og leyninúmer sem er sent sem smáskilaboð í síma þeirra. Þá hafa verið gerðar breytingar á ferlum varðandi erlendar greiðslur.

„Nú sendum við aldrei greiðsluupplýsingar í tölvupósti, notumst við bæði SMS og símtöl þegar móttaka greiðsla á sér stað frá erlendum aðila,“ segir Herjólfur.

Hann segir að tölvupósti sé ekki treystandi. Fyrirtækið sé ekki bótaskylt, tjónið sé alfarið viðskiptavinarins.

„Þetta er afskaplega leiðinlegt mál. Í þessu tilfelli komum við til móts við viðskiptavininni með 50% afslætti til að lágmarka tjónið.“

Herjólfur Guðbjartsson, framkvæmdastjóri Arctic Trucks, segir að ökuferðin yfir Suðurpólinn hafi verið farin í janúar en upp komst um svikin um mánaðamótin nóvember-desember á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×