Innlent

At­hugað í fyrra­málið hvort hægt verði að opna vegi á Austur­landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skjáskoti af korti Vegagerðarinnar sem sýnir lokanir á Austurlandi.
Skjáskoti af korti Vegagerðarinnar sem sýnir lokanir á Austurlandi.
Fjöldi vega á Austurlandi er lokaður vegna veðurs og snjóflóðahættu en á vef Vegagerðarinnar segir að athugað verði í fyrramálið hvort hægt verði að opna á ný.

Þannig er vegurinn um Fagradal lokaður vegna veðurs og snjóflóðahættu, Fjarðarheið er lokuð vegna veðurs sem og Mývatns- og Möðrudalsöræfi. Þá er vegurinn um Hvalnesskriður lokaður vegna snjóflóðs.

Skafrenningur er svo mjög víða á Norðurlandi sem og á Vestfjörðum.

Stíf norðanátt með ofankomu er á norðausturhluta landsins og segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, að á morgun dragi smátt og smátt úr veðrinu.

Þannig verði stíf norðanátt verði lengst af enn á morgun og það sé í raun ekki fyrr en á sunnudag sem það verði komið fínasta veður á landinu öllu.

Þeir sem hyggja á ferðalög á morgun ættu því að fylgjast vel með veðurspám og færð á vegum.

Færð á vegum samkvæmt vef Vegagerðarinnar:

Suðvesturland: Víðast hvar greiðfært en hálkublettir á nokkrum vegum. Hálkublettir og skafrenningur er á Mosfellsheiði en óveður er á Kjalarnesi.

Vesturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja og sums staðar skafrenningur. Þæfingur er á Vatnaleið, Fróðárheiði sem og milli Búða og Hellna. Skyggni er lítið við Hafursfell sem og á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Vestfirðir: Hálka, hálkublettir eða  snjóþekja er á vegum og éljagangur eða skafrenningur mjög víða. Þæfingsfærð er á Klettshálsi, Steingrímsfjarðarheiði, á Þröskuldum og á Kaldrananesi en þungfært er á Bjarnarfjarðarhálsi.

Norðurland: Víðast hálka eða snjóþekja og mjög víða skafrenningur. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli, í Ólafsfjarðarmúla, milli Dalvíkur og Árskógsstrandar sem og á Grenivíkurvegi. Ófært er um Víkurskarð og Almenninga, milli Siglufjarðar og Fljóta.

Norðausturland: Snjóþekja víðast hvar og skafrenningur. Þæfingsfærð er á Fljótsheiði sem og í Bakkafirði en þungfært er orðið á Tjörnesi, innansveitar í Vopnafirði sem og á Brekknaheiði. Ófært er um Hófaskarð og Hálsa en lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi sem og á Hólasandi.

Austurland: Snjóþekja, þæfingur eða jafnvel þungfært er nokkuð víða. Ófært er í Skriðdal, Hróarstungu og á Vatnsskarði eystra en lokað er á Fjarðarheiði, á Fagradal og í Hvalnesskriðum.



Suðausturland: Hálkublettir eða hálka víðast hvar og sums staðar skafrenningur.


Suðurland: Hringvegurinn er nánast auður en sums staðar er nokkur hálka eða hálkublettir á öðrum vegum. Skafrenningur er Lyngdalsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×