Innlent

Austurrískt fyrirtæki sinni sjúkraflugi á Selfossi og Akureyri

Sighvatur Jónsson skrifar
Sjúkraþyrla austurríska fyrirtækisins Heli Austria.
Sjúkraþyrla austurríska fyrirtækisins Heli Austria. Vísir/Aðsend
Austurrískt þyrlufyrirtæki hefur sótt um vilyrði fyrir lóð á Selfossflugvelli. Íslenskur flugmaður hjá fyrirtækinu segir það áforma útsýnisflug frá flugvöllum á Selfossi og Akureyri.

Greint var frá því á Vísi í gærkvöldi að þyrlufyrirtækið Heli Austria hafi lagt inn umsókn til bæjarráðs Árborgar um vilyrði fyrir lóð á flughlaði Selfossflugvallar.

Gunnar Svanur Einarsson þyrluflugmaður hefur störf hjá Heli Austria í næsta mánuði við þyrluflug í tengslum við skíðaferðir á Tröllaskaga. Fimm þyrlur verða notaðar í það verkefni.

Hann segir að í framhaldi verði útsýnisþyrla frá fyrirtækinu á Akureyri. Hugmyndin er að önnur þyrla verði staðsett á Selfossi fyrir útsýnisflug um Suðurland.

Reynsla af sjúkraflugi

Í umsókninni sem Gunnar Svanur sendi til Árborgar, fyrir hönd austurríska fyrirtækisins Heli Austria, segir að unnið sé að komu sjúkraþyrlu ásamt annarri þyrlustarfsemi fyrirtækisins. Hann segir fyrirtækið í stakk búið til að sinna sjúkraflugi líka en rætt hefur verið um að staðsetja sjúkraþyrlu á Suðurlandi.

„Ef yfirvöld myndu vilja það þá er fyrirtækið vel hæft til þess, það rekur átta sjúkraþyrlustöðvar,“ segir Gunnar Svanur í samtali við fréttastofu. 

Hann segir að tvær þyrlur yrðu staðsettar á landinu í tengslum við útsýnisflugið, ein fyrir norðan og önnur fyrir sunnan. Ef fyrirtækið tæki að sér að sinna sjúkraflugi þyrfti aðrar sérútbúnar þyrlur til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×