Innlent

Gul viðvörun á Suðvestur- og Vesturlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Gular viðvaranir eru í gildi í nokkra klukkutíma í kvöld vegna hríðarveðurs SV-lands og á Breiðafirði.
Gular viðvaranir eru í gildi í nokkra klukkutíma í kvöld vegna hríðarveðurs SV-lands og á Breiðafirði. Veðurstofan
Gul viðvörun hefur verið gefin út af Veðurstofunni á Vesturlandi og Suðvesturlandi í dag.

Á vef Veðurstofunnar segir að dagurinn byrji á klassísku vetrarveðri með suðvestanátt og éljum um landið sunnan og vestanvert. Víða verði léttskýjað fyrir austan og frost um allt land.

„Upp úr hádegi dregur þó heldur úr vindi og éljum. Um kvöldmatarleytið koma skil upp að landinu SV-verðu með suðaustan hvassviðri eða stormi og snjókomu, en síðar slyddu og rigningu á láglendi og hlýnandi veðri. Gular viðvaranir eru í gildi í nokkra klukkutíma í kvöld vegna hríðarveðurs SV-lands og á Breiðafirði. Þær viðvaranir eiga einkum við um heiðar og uppsveitir. 

Eftir snjókomu gærdagsins og áframhaldandi éljagang í dag eru líkur á að eitthvað af snjónum muni bráðna í kvöld þegar hlýnar, en á morgun kólnar aftur og er því viðbúið að svell myndist. 

Á morgun lægir víða og á þriðjudag og miðvikudag er útlit fyrir kalt hæglætisveður um allt land með éljum á víð og dreif,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag: Suðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og él, einkum S-lands. Sunnan 13-18 austast á landinu í fyrstu og rigning. Kólnandi veður, frost 0 til 5 stig um kvöldið.

Á þriðjudag og miðvikudag: Hæg breytileg átt og bjart með köflum, en él á stöku stað. Frost 1 til 10 stig. 

Á fimmtudag: Gengur í suðaustan 8-15 m/s, en suðvestlægari vindur undir kvöld. Víða snjókoma eða slydda, en rigning með suðurströndinni. Minnkandi frost á landinu og hlánar syðst. 

Á föstudag: Snýst í norðlæga átt með snjókomu um landið N- og A-vert. Hægari vindur sunnan heiða og léttir til. Hiti um eða rétt undir frostmarki.  

Á laugardag: Útlit fyrir minnkandi norðanátt og él N-lands, en bjart fyrir sunnan. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×