Fótbolti

Nýr Panenka-kóngur í knattspyrnuheiminum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos með enn eitt Panenka vítið.
Sergio Ramos með enn eitt Panenka vítið. Getty/Gonzalo Arroyo Moreno
Næsti markvörður sem stendur frammi fyrir vítaspyrnu hjá Real Madrid manninum Sergio Ramos ætti að hafa eitt í huga.

Miðvörður Real Madrid er vítaskytta liðsins eftir að Cristiano Ronaldo var seldur til Juventus og skoraði í gær úr sinni sjöundu vítaspyrnu á tímabilinu í 4-2 sigri Real Madrid á Girona í spænska bikarnum.

Sergio Ramos er náttúrulegur töffari og hann bauð enn einu sinni upp á „stælavíti“ í gær.





Sergio Ramos skoraði með svokallaðri Panenka-vítaspyrnu en það er þegar vítaskyttan lyftir boltanum í mitt markið á meðan markvörðurinn skutlar sér í annaðhvort hornið. Hefði markvörðurinn verið kyrr þá hefði hann gripið boltann auðveldlega.

Það er mikil áhætta fólgin í slíkri spyrnu en hún var skírð eftir Tékkanum Antonín Panenka sem tryggði Tékkóslóvakíu Evrópumeistaratitilinn 1976 með því að taka svona spyrnu í vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum.





Það sem er þó fréttnæmast við þessa Panenka vítaspyrnu Sergio Ramos er að hann var að reyna þetta í fjórða sinn á tímabilinu.

„Þetta er stór persónuleg stund fyrir mig og þetta er leið fyrir mig til að tjá tilfinningar mínar og sýna það hvernig maður ég er,“ sagði Sergio Ramos heimspekilegur eftir leikinn.

„Markverðirnir bíða alltaf lengur og lengur eftir mér og ef þeir bíða þá þarf ég bara að setja boltann í annaðhvort hornið,“ sagði Sergio Ramos.

Alls hafa 7 af 15 vítaspyrnum Sergio Ramos á ferlinum verið Panenka-spyrnur.Hér fyrir neðan eru þær sem hann hefur tekið á þessu tímabili.





Vítaspyrnur Sergio Ramos  fyrir Real Madrid á leiktíðinni:

15. ágúst - 4-2 tap í framlengingu á móti Atletico Madrid - hægra hornið niðri

26. áhúst - 4-1 sigur Girona í deildinni - Panenka

1. september - 4-1 sigur á Leganes í deildinni - til hægri

3. nóvember - 2-0 sigur á Real Valladolid í deildinni - Panenka

11. nóvember - 4-2 sigur á Celta Vigo í deildinni - Panenka

9. janúar - 3-0 sigur á Leganes í bikarnum - vinstra hornið niðri

24. janúar - 4-2 sigur á Girona í bikarnum - Panenka




Fleiri fréttir

Sjá meira


×