Íslenski boltinn

Stjarnan að fá leikmann úr dönsku úrvalsdeildinni?

Anton Ingi Leifsson skrifar
vísir/getty
Nimo Gribenco gæti verið á leið í Pepsi-deild karla en Stjarnan er í viðræðum við leikmanninn um að ganga í raðir þeirra bláklæddu.

Gribenco er nú á mála hjá AGF í dönsku úrvalsdeildinni en hann hefur ekki náð að brjóta sér inn í aðalliðið. Hann hefur spilað fimm leiki fyrir félagið og þar af fjóra í bikarnum.

Gribenco er sókndjarfur leikmaður sem er fæddur og uppalinn í Danmörku. Hann kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Árósar-liðinu en hann er fæddur árið 1997.

„Hinn ungi sókndjarfi leikmaður hefur fengið frí þangað til á sunnudag til þess að heimsækja íslenska félagið Stjörnuna,“ skrifaði AGF út í tilkynningu sinni fyrr í dag.

„Þar geta báðir aðilar talað saman í ró og næði en möguleiki er á að Gribenco fari á láni til Stjörnunnar. Hann fer því ekki með AGF í æfingaferðina,“ en AGF fer til Portúgals í æfingarferð á laugardag.

Gribenco var samherji Björns Daníels Sverrissonar en milli jóla og nýárs var tilkynnt að Björn Daníel hefði snúið aftur heim í uppeldisfélagið, FH.

Stjarnan er ríkjandi bikarmeistari og endaði í öðru sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×