Innlent

Gæti snjóað duglega í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það er vetrarlegt um að litast á landinu um þessar mundir.
Það er vetrarlegt um að litast á landinu um þessar mundir. Vísir/vilhelm
Hörkufrost er á landinu í dag en gert er ráð fyrir að dragi úr því suðvestan- og vestantil. Þá kemur snjókomubakki inn á landið vestanvert seint í dag og gæti „snjóað duglega“ úr honum á einhverjum stöðum. Þó dregur úr ofankomu með kvöldinu, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er búist við því að vindur fari vaxandi af suðaustri og skýjaþykkni færast yfir suðvesturhornið og Vesturland og drægi þar úr frostinu.

„[…] en hins vegar ekki sömu sögu að segja á N- og A-landi þar sem frostið gefur ekkert eftir í dag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þá er vetrarfærð í öllum landshlutum, mestan part hálka eða hálkublettir, en víðast hvar er  hæglætisveður og gott frost. Frekari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Austlæg eða breytileg átt, víða 3-8 m/s og snjókoma eða él, en gengur í norðaustan 8-15 á Vestfjörðum. Frost 1 til 10 stig, kaldast í innsveitum. 

Á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Norðan- og norðaustanátt, víða 8-15 m/s og snjókoma eða él, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 15 stig, kaldast inn til landsins. 

Á laugardag:

Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með slyddu eða snjókomu S- og V-lands, en hægari og bjart N- og A-lands. Minnkandi frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×