Innlent

Mesta frost vetursins mældist í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segir þetta vera mesta frostið í byggðum í vetur og meira en mældist á síðasta ári.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segir þetta vera mesta frostið í byggðum í vetur og meira en mældist á síðasta ári. Vísir/Vilhelm
27,5 gráðu frost mældist í Möðrudal í dag. Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segir þetta vera mesta frostið í byggðum í vetur og meira en mældist á síðasta ári. Í Facebooksíðu Hungurdiska segir Trausti að síðasta vetur hafi frost mest farið í 29 gráður í Svartárkoti þann 29. desember.



Þá segir Trausti að rétt rúm fimm ár séu síðan frost mældist síðast meira en 30 gráður. Það hafi síðast gerst þann 6. desember 2013 og þegar 31 gráðu frost mældist við Mývatn.

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands mældist mesti kuldinn á láglendi við Brú á Jökuldal í dag. Þar var 24,9 gráðu frost. Mesti hitinn á láglendi, 3,9 gráður, mældist í Surtsey.



Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Norðaustan 10-18 m/s og víða snjókoma eða él, hvassast nyrst á Vestfjörðum og úti við SA-ströndina, en yfirleitt léttskýjað S- og V-lands. Frost 0 til 10 stig, minnst við sjávarsíðuna.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:

Norðlæg átt, víða 8-15 m/s og snjókoma eða él N-til, en hvassara um tíma og meiri ofankoma seint á fimmtudag og snemma á föstudag. Lengst af léttskýjað sunnan heiða. Frost 2 til 15 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:

Útlit fyrir hæga vinda, bjartviðri og talsvert frost, en vaxandi suðaustanátt og fer að snjóa S- og V-lands um kvöldið og dregur úr frosti þar.

Á sunnudag:

Gengur í suðaustanátt með snjókomu eða slyddu S- og SV-lands og hiti um og yfir frostmarki, en hægari og þurrt á N- og A-landi og kalt í veðri.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×